Heillandi „Handritið er helsti kostur myndarinnar, það er vel skrifað og persónurnar eru mannlegar og heillandi,“ segir í gagnrýni um Hearts Beat Loud.
Heillandi „Handritið er helsti kostur myndarinnar, það er vel skrifað og persónurnar eru mannlegar og heillandi,“ segir í gagnrýni um Hearts Beat Loud.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórn og handrit: Brett Haley. Kvikmyndataka: Eric Lin. Klipping: Patrick Colman. Aðalhlutverk: Nick Offerman, Kiersey Clemons, Ted Danson, Toni Colette, Sasha Lane, Blythe Danner. 97 mín. Bandaríkin, 2018.
Hearts Beat Loud gerist yfir eitt tímamótasumar í lífi plötubúðareigandans Franks Fisher frá New York. Reksturinn gengur brösulega og það er ljóst að hann þarf bráðlega að loka búðinni. Frank er einstæður faður og Sam, dóttir hans, er á leiðinni í háskóla í Los Angeles til að læra læknisfræði. Þetta er síðasta sumarið, síðasti séns áður en Sam fer í skólann og plötubúðin lokar.

Sam er afar samviskusöm ung kona og er mjög metnaðarfull gagnvart náminu sem er handan við hornið. Frank er hins vegar mun afslappaðri og finnst að Sam ætti að hætta að vera nefið alltaf ofan í bókum. Þetta er því viðsnúin þroskasaga, þar sem sá fullorðni er eins og unglingur og unglingurinn eins og sá fullorðni.

Frank var tónlistarmaður áður en hann fór að reka búðina og var í hljómsveit með konunni sinni, móður Sam, sem lést sviplega í slysi þegar Sam var ung. Tónlistarmannsdraumurinn blundar enn með honum og hann er með lítið upptökuver heima hjá sér og slatta af hljóðfærum. Hann fær Sam til að taka upp lag með sér, sem reynist vera ansi efnilegur slagari. Hann stelst til að setja lagið inn á Spotify, þar sem það verður vinsælt. Frank fer því að leggja á ráðin um hvernig þessi nýja feðginahljómsveit geti tekið yfir heiminn, meðan Sam er með hugann við allt aðra hluti, eins og námið og nýtendrað ástarævintýri með listakonunni Rose.

Handritið er sterkt og byggist upp af einföldum og sannfærandi tilfinningum. Sam þráir breytingar, hún vill strúktúr frekar en óreiðu og vill fara frá austurstöndinni yfir á vesturströndina. Frank hins vegar óttast breytingar og slær öllu á frest til þess að þurfa ekki að horfast í augu við að líf hans gæti tekið stakkaskiptum. Á endanum þurfa þau bæði þurfa að læra að láta undan og reyna að sameina ólíka þætti innra með sér, að leyfa hinu listræna og hinu jarðbundna að lifa samlífi.

Þróun aðapersónanna er taktföst og áhugaverð. Keirsey Clemons og Nick Offerman eru frábær í sínum rullum og hafa virkilega sterka kemestríu sín á milli. Margir þekkja Nick Offerman vísast úr sjónvarpsþáttunum Parks and Recreation þar sem hann leikur hinn últra-karlmannlega Ron Swanson. Það eru ekki mikil líkindi milli Ron Swanson og Frank Fisher, enda er Offerman fjölhæfur leikari. Engu að síður má greina sérkenni Offermans í túlkun hans á Frank og það er hvað hann er óvenjulegur og einstakur gamanleikari, hann getur verið grafalvarlegur og sprenghlægilegur á sama tíma.

Eðli málsins samkvæmt er mikil tónlist í myndinni. Gegnum hljóðrás og sviðsmynd er vísað til ýmissa frægra indí-hljómsveita. Það er ekki kafað mjög djúpt í grasrótina, sem hefði verið gaman, en þarna er t.d. vísað til DJ Shaddow, Animal Collective og Tom Waits. Tónlistin sem feðginin semja er ekkert stórkostleg, hún er heldur poppuð, en hún passar myndinni ágætlega og Keirsey Clemons sýnir að hún er reglulega fín söngkona.

Aukapersónurnar í myndinni eru mjög skemmtilegar. Ted Danson, sem er þekktastur fyrir að leika geðþekka kráareigandann Sam í sjónvarpsþættinum Cheers , rifjar hér upp gamla takta í hlutverki Daves, sem á bar sem Frank heimsækir reglulega. Þótt Dave og Sam starfi í sama geiranum eru persónurnar mjög ólíkar. Dave er værukær freðhaus, sem reynir að taka lífinu ekki of alvarlega og leggur Frank lífsreglurnar. Blythe Danner leikur móður Franks, ömmu Sam. Hún lítur út fyrir að vera saklaus gömul kona en hún er gjörn á að hnupla úr búðum og Frank þarf ítrekað að koma henni til bjargar þegar hún er gómuð.

Amman er skemmtilegur karakter og það hefði samt verið mjög gaman að sjá meira gert úr henni. Það er eins og það vanti eitthvað í hennar sögu og gæti jafnvel hugsast að hún hafi verið klippt út úr myndinni að einhverju leyti.

Handritið er helsti kostur myndarinnar, það er vel skrifað og persónurnar eru mannlegar og heillandi. Hearts Beat Loud er ekta indí feel-good mynd, sem er bæði hjartnæm og skemmtileg.

Brynja Hjálmsdóttir