[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Svanborg Sigmarsdóttir , upplýsingafulltrúi Ríkisendurskoðunar, tísti um tungutak borgarbúa: „Hef heyrt/séð Reykvíkinga tala um að borða bjúgur. Hvaðan kemur þetta auka r? Er best að útrýma þessari vitleysu með því að elda bara sperðla?
Svanborg Sigmarsdóttir , upplýsingafulltrúi Ríkisendurskoðunar, tísti um tungutak borgarbúa: „Hef heyrt/séð Reykvíkinga tala um að borða bjúgur. Hvaðan kemur þetta auka r? Er best að útrýma þessari vitleysu með því að elda bara sperðla?“ Hún bætti svo við: „Ég gæti sætt mig við að fólk sé að borða bjúg, það er ógeðslegt en skiljanlegra.“

Þórdís Gísladóttir rithöfundur tísti: „Hvers vegna hugsa amerískir túristar upphátt í fjölmenni og gala hver á annan og segja óspurðir og nefmæltir frá mataræði sínu og fimleikaiðkun barnabarna og tilkynna sessunautum að einhver Bob hafi einu sinni verið í sjóhernum? Mig langar að sussa á þetta gamla fólk.“

Spjallþáttastjórnandinn Gísli Marteinn Baldursson brást við færslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á Twitter um kvartanir vegna tillitslausra hjólreiðamanna á höfuðborgarsvæðinu í sumar. Hann tísti: „Vafalaust eru einhverjir hjólreiðamenn tillitslausir – en ef okkar góða lögregla myndi standa sig í að sekta þá bíla sem leggja uppá hjólastígum/gangstéttum og eins þær þúsundir ökumanna sem ekki taka tillit til hjólafólks, þá er ég viss um að hjólafólk væri í betra skapi.“

Ljóðskáldið og varaþingkonan Eydís Blöndal tísti: „Í vaðlauginni í Vesturbæjarlaug sat vinkonuhópur með tárin í augunum og sór eið þess efnis að hætta ekki að vera vinkonur þótt þær væru að byrja í Hagaskóla. Tærari og sterkari tilfinningar má einungis finna á fæðingardeildum.“

Tónlistarkonan Salka Sól Eyfeld tísti: „Var að fá símtal þar sem ég var beðin um að syngja upphafsstefið í Ducktales og ég sagði strax „ÉG SKAL GERA ÞAГ og fattaði svo að það er önnur teiknimynd og nú er ég að gjöra svo vel að hugsa minn gang.“

Og Sævar Helgi Bragason , ritstjóri Stjörnufræðivefsins, deildi smá fróðleik á Twitter í tilefni þess að svokölluð silfurský sáust á himni um miðja vikuna: „Falleg silfurský á himni í nótt. Silfurský sjást um miðnætti á þessum tíma árs. Þau eru örþunnar bláhvítar eða silfurleitar skýjaslæður í 80-85 km hæð í kaldasta hluta lofthjúpsins. Þau eru úr agnarsmáum ískristöllum sem eru 500 sinnum minni en breidd mannshárs.“

Rithöfundurinn Yrsa Sigurðardóttir tístir á ensku en lauslega þýtt er nýjasta tíst hennar svohljóðandi: „Stafaði tölvupóst minn við afgreiðslumann í verslun og sagði óvart: „K eins og í Kim Kardashian“. Mig langar að fara aftur og segja: „Afsakið, ég meinti K eins og í Kafka.“