[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jóhanna Erla Pálmadóttir fæddist á Blönduósi 4.8. 1958 en ólst upp á Akri í Torfalækjarhreppi við öll almenn sveitastörf og auk þess í Reykjavík.

Jóhanna Erla Pálmadóttir fæddist á Blönduósi 4.8. 1958 en ólst upp á Akri í Torfalækjarhreppi við öll almenn sveitastörf og auk þess í Reykjavík. Hún var tvo vetur í Húnavallaskóla og síðan í ýmsum skólum í Reykjavík þar sem faðir hennar sinnti þingstörfum. Hún lauk síðar prófum sem framhaldskólakennari frá Håndarbejdes Fremmes Seminarium í Kaupmannahöfn 1988 með sérsvið í útsaumi og prjóni.

Jóhanna starfaði við Búnaðarbanka Íslands í Reykjavík 1976-78, var ritari og sá um launabókhald hjá Landsvirkjun 1978-80, var ráðsmaður á Akri með manni sínum 1980-83, var við nám og störf í Kaupmannahöfn 1983-90, var vistarvörður og leiðbeinandi fyrir búfræðinga á Bændaskólanum á Hvanneyri 1990-95, byggði þá upp valgreinina „ullariðn“ við skólann og Ullarselið á Hvanneyri og var ullarráðunautur fyrir Vesturland. Auk þess hélt hún námskeið og fyrirlestra víða um land.

Jóhann hefur kennt ullariðnað frá 1991, spuna, kembingu, prjón, hekl, útsaum og fleira. Hún var sölumaður hjá Vogue 1995-97 og bjó þá á Selfossi. Fjölskyldan flutti síðan að Akri 1997 en þá tóku þau hjónin yfir sauðfjárbú foreldra hennar.

Jóhanna var formaður Smáverkefnasjóðs Landbúnaðarins 1994-2006, vann í móttöku hjá Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi 1997 og hefur síðan verið faglegur ráðgjafi við skrásetningar fyrir safnið.

Jóhanna sat í sveitarstjórn Torfalækjarhrepps og síðar Húnavatnshrepps á árunum 1998-2014, var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins 2003-2007 og sat á Alþingi um skeið.

Jóhanna sat í stjórn Textílseturs Íslands 2008-2011, í norrænu nefnd Heimilisiðnaðarfélags Íslands 2011-2015, var framkvæmdastjóri Textílseturs Íslands 2011, hélt fyrirlestur um hannyrðir sínar í Þjóðminjasafninu í tilefni af 100 ára afmæli Heimilisiðnaðarfélags Íslands 2013, sinnti verkefnum á vegum Textíls hjá Þekkingarsetrinu á Blönduósi 2014-2015, hefur sinnt árlegri kennsla og móttöku danskra textílnemenda frá UCC Profession skole frá 2012, var í forsvari fyrir hönd Textílsetursins er haldin var ráðstefnan „North Atlantic Native Sheep and Wool Conference“ 2014 og í forsvari fyrir hönd Textílsetursins á Prjónagleði, 2016, sem nú er árlegur viðburður.

Jóhanna var formaður félags sauðfjárbænda í Austur-Húnavatnssýslu 1998-2004, varaformaður Landssamtaka sauðfjárbænda 2003-2008 og fulltrúi þeirra í samninganefnd við ríkið vegna sauðfjársamnings ásamt fleiri embættum á þess vegum. Hún var formaður Fiskiræktarsjóðs 2009-2013.

Fjölskylda

Eiginmaður Jóhönnu er Gunnar Rúnar Kristjánsson, f. 29.8. 1957, fulltrúi hjá RARIK. Foreldrar hans: Hjónin Guðný Björnsdóttir, f. 20.7. 1925, húsfreyja í Reykjavík, og Lars Kristján Sveinlaugsson, f. 11.9. 1922, d. 19.8. 1981, símritari.

Börn Jóhönnu og Gunnars Rúnars eru 1) Helga Gunnarsdóttir, f. 21.1. 1983, grunnskólakennari í Reykjavík, og 2) Pálmi Gunnarsson, f. 6.1. 1989, viðskiptafræðingur og bóndi á Akri en kærasta hans er Þuríður Hermannsdóttir, nemi í dýralækningum.

Systkini Jóhönnu eru Jón Pálmason, f. 8.7. 1957, rafmagnsverkfræðingur í Reykjavík, og Nína Margrét Pálmadóttir, f. 14.12. 1970, sjúkraliði og ferðamálafræðingur í Hveragerði

Foreldrar Jóhönnu voru hjónin: Helga Sigfúsdóttir, f. 6.7. 1936, d. 20.3. 2018, húsfreyja á Akri og í Reykjavík, og Pálmi Jónsson, f. 11.11. 1929, d. 9.10. 2017, bóndi á Akri, alþingismaður og ráðherra.