Vísnavinkonur Vigdís Hafliðadóttir og Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir.
Vísnavinkonur Vigdís Hafliðadóttir og Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir.
Hildur Loftsdóttir hilo@mbl.is Vísnadúettinn Vísur og skvísur flytur íslensk og skandinavísk vísnalög þar sem texti mætir hljómþýðum laglínum á stofutónleikum Gljúfrasteins á morgun, sunnudag, kl. 16.

Hildur Loftsdóttir

hilo@mbl.is

Vísnadúettinn Vísur og skvísur flytur íslensk og skandinavísk vísnalög þar sem texti mætir hljómþýðum laglínum á stofutónleikum Gljúfrasteins á morgun, sunnudag, kl. 16.

Stunduðu nám í vísnasöngskóla

Það eru vísnasöngkonurnar Vigdís Hafliðadóttir og Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir sem skipa dúettinn Vísur og skvísur. Þær syngja báðar og leika á gítar auk þess sem Vigdís leikur einnig á fiðlu og Þorgerður Ása á það til að grípa í kontrabassann. Þær stöllur hafa leikið saman í tvö ár, en þær hafa báðar stundað nám í vísnasöng við Norræna vísnasöngskólann í Kungälv í Svíþjóð.

„Við spilum mestmegnis norræn lög en reynum að hafa textana á því máli sem talað er í hverju landi. Við vorum til dæmis að spila á vísnahátíð í sænskumælandi bæ í Finnlandi og þá reyndum við að hafa sem mest á sænsku og örlítið á finnsku. Annars erum við ekki jafngóðar í henni og hinum Norðalandamálunum,“ segir Þorgerður Ása kankvís.

„Í skólanum kynntumst við fullt af tónlist sem kannski ekki margir hér þekkja og við viljum endilega flytja þessi lög á Íslandi. Við leikum lög sem segja sögu, en í náminu var mest áhersla lögð á túlkun og að taka allt burt sem truflar flutninginn. Flutningurinn er samtal við áhorfendur, og við leggjum áherslu á að textinn komist til skila og oft erum við að spila þýðingar,“ segir Þorgerður Ása sem er dóttir Önnu Pálínu Árnadóttur heitinnar og Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar sem hefur verið duglegur að þýða fyrir þær á íslensku. „Svo erum við líka með texta eftir Iðunni Steinsdóttur og höfum líka báðar verið að þýða.“

Lög sem heyrst sjaldan

Á morgun munu þær stöllur mest syngja fyrir okkur á íslensku, en einnig munu heyrast sænska og finnska. Á efnisskránni verða m.a. lög eftir Jón Ásgeirsson, Barböru Helsingius og Eivøru Pálsdóttur.

„Á morgun flytjum við lög sem heyrast sjaldan, en það verða líka lög sem fólk þekkir. Við tökum við t.d. lagið „Konan sem kyndir ofninn minn“, en í okkar útfærslu.

– Hvaða vísnasöngvarar hafa verið í uppáhaldi hjá þér og fyrirmynd?

„Mér finnst Eivør algjörlega frábær. Mörg laganna hennar eru í þessum þjóðlagastíl, sérstaklega á eldri plötunum hennar. Janis Ian hefur líka lengi verið í uppáhaldi. Og svo auðvitað mamma og pabbi,“ segir Þorgerður Ása sem vonast til að sjá sem flesta á tónleikunum á Gljúfrasteini á morgun.