Ásgeir Margeirsson
Ásgeir Margeirsson
Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, ritar grein í Viðskiptablaðið í vikunni og fjallar þar um virkjanaframkvæmdir, lagarammann sem um þær gildir og vinnubrögð þeirra sem andsnúnir eru virkjunum.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, ritar grein í Viðskiptablaðið í vikunni og fjallar þar um virkjanaframkvæmdir, lagarammann sem um þær gildir og vinnubrögð þeirra sem andsnúnir eru virkjunum. Hann bendir á að samkvæmt raforkuspá Orkuspárnefndar þurfi um 150 MW af nýju afli inn í raforkukerfið til ársins 2030. Þar sé aðeins horft til almenna markaðarins, en ekki til dæmis rafbílavæðingar eða uppbyggingar orkufreks iðnaðar.

Miðað við það er augljóst að þörf er á aukinni raforkuframleiðslu í landinu, auk þess sem afhendingaröryggi er víða ábótavant.

Þess vegna þarf að vera hægt að virkja á þeim stöðum þar sem ákveðið hefur verið að virkja megi, en Ásgeir lýsir því hve auðvelt einstakir aðilar eiga með að þvælast fyrir eins og löggjöfin er, jafnvel eftir að framkvæmdir eru hafnar.

Nefnir hann í þessu sambandi Brúarvirkjun, litla rennslisvirkjun í Tungufljóti, og Hvalárvirkjun á Ströndum.

Hann segir umgjörð virkjanaframkvæmda hér á landi umhugsunarefni og sérstakt sé að hægt sé án rökstuðnings að kæra framkvæmd með tilheyrandi kostnaði fyrir framkvæmdaaðila. Þá gagnrýnir hann þá aðferð virkjanaandstæðinga að hreyfa ekki andmælum á kynningarstigi en kæra síðar.

Ásgeir telur að þessu verði að breyta. Það hlýtur að koma til skoðunar á Alþingi.