Mennirnir tveir, sem handteknir voru á Fáskrúðsfirði í lok júní, voru upphaflega úrskurðaðir í gæsluvarðhald en sæta nú farbanni til 8. ágúst. Þeir eru pólskir ríkisborgarar.

Mennirnir tveir, sem handteknir voru á Fáskrúðsfirði í lok júní, voru upphaflega úrskurðaðir í gæsluvarðhald en sæta nú farbanni til 8. ágúst. Þeir eru pólskir ríkisborgarar.

Mennirnir eru grunaðir um innbrot og þjófnaði en einnig er til rannsóknar árás annars þeirra á Jón Bernharð Kárason.

Elvar Óskarsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Austurlandi, segir að ekki hafi þótt ástæða til þess að framlengja gæsluvarðhaldið yfir þeim. „Almennt séð eiga þetta ekki að vera íþyngjandi ráðstafanir og við gætum meðalhófs í beitingu gæsluvarðhalds.“

Hann segir mennina ekki hættulega. „Ekki í þeirri merkingu að þeir ógni lífi og heilsu fólks. Auðvitað eru þetta samt menn sem eru grunaðir um fleiri en eitt afbrot og þannig séð eru þeir grunaðir um að hafa staðið í brotastarfsemi hér á landi.“

Mennirnir komu til landsins 20. júní, að því er virðist í þeim eina tilgangi að fara ránshendi um landið. Þeir eru grunaðir um fjölmörg þjófnaðarbrot víða um landið en við leit lögreglu í bíl þeirra fundust m.a. skartgripir, úr og peningar, sem talið var þýfi.

Að sögn Elvars er vonast til þess að málið komi brátt inn á borð ákæruvaldsins.