Stjörnur Nýjasta plata hjónanna, Jay Z og Beyoncé Knowles, er sú plata sem oftast hefur verið hlaðið niður ólöglega af netverjum.
Stjörnur Nýjasta plata hjónanna, Jay Z og Beyoncé Knowles, er sú plata sem oftast hefur verið hlaðið niður ólöglega af netverjum. — AFP
Einungis 10% Breta nýta sér ólöglegt niðurhal til að streyma tónlist en það er talsverð lækkun frá árinu 2013 þegar fjöldinn var í kringum 18%. Þetta eru niðurstöður könnunar YouGov sem birtar voru á vef BBC í fyrradag.

Einungis 10% Breta nýta sér ólöglegt niðurhal til að streyma tónlist en það er talsverð lækkun frá árinu 2013 þegar fjöldinn var í kringum 18%. Þetta eru niðurstöður könnunar YouGov sem birtar voru á vef BBC í fyrradag. Þá bendir allt til þess að þróunin haldi áfram en ríflega 22% þeirra sem nú notast við ólöglegt niðurhal ráðgera að hætta því innan næstu fimm ára. Þá sögðu 44% svarenda að þau myndu einungis nýta sér ólöglegt niðurhal þegar ekki væri hægt að nálgast lagið með löglegum hætti.

Ástæða viðsnúningsins er sögð vera betra aðgengi að löglegum streymisveitum á netinu. „Með tilkomu Spotify er í raun algjör óþarfi að nýta sér ólöglegar leiðir á netinu til að hlusta á tónlist. Þeim hefur tekist að fylla þetta tómarúm sem áður var á markaðnum,“ sagði einn svarenda könnunar YouGov.

Niðurstöður könnunarinnar eru jákvæðar fréttir fyrir tónlistarmenn en ólöglegt niðurhal hefur verið talsvert vandamál innan geirans í nokkur ár. Justin Marshall, aðstoðarframkvæmdastjóri YouGov, sagði að tónlistarmenn um allan heim gætu glaðst yfir niðurstöðunum.„Þrátt fyrir að ólöglegt niðurhal sé enn ógn þá sýna þessar niðurstöður að það er ljós við enda ganganna,“ sagði hann. aronthordur@mbl.is