Blaut byrjun Heimamenn voru mættir í Dalinn til að setja þjóðhátíð 2018 með pompi og prakt. Það rigndi örlítið en enginn virtist láta það á sig fá og stefnir í góða mætingu á þjóðhátíð.
Blaut byrjun Heimamenn voru mættir í Dalinn til að setja þjóðhátíð 2018 með pompi og prakt. Það rigndi örlítið en enginn virtist láta það á sig fá og stefnir í góða mætingu á þjóðhátíð. — Ljósmynd/Óskar P. Friðriksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Verslunarmannahelgin er gengin í garð og flykkjast landsmenn á útihátíðir um allt land. Morgunblaðið hafði samband við forsvarsmenn nokkurra helstu útihátíða landsins í gærkvöldi og hófst helgin vel að sögn þeirra...

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Verslunarmannahelgin er gengin í garð og flykkjast landsmenn á útihátíðir um allt land. Morgunblaðið hafði samband við forsvarsmenn nokkurra helstu útihátíða landsins í gærkvöldi og hófst helgin vel að sögn þeirra allra. Á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fór húkkaraballið fram á fimmtudag og segir Jónas Guðbjörn Jónsson, talsmaður þjóðhátíðarnefndar, allt hafa farið vel fram. „Bara ljómandi vel. Það var bara frábært húkkaraball og gekk allt vel. Ekkert vesen.“ Hann gat ekki sagt til um nákvæman fjölda fólks í Dalnum í gærkvöldi. Umferðarslys á Suðurlandsvegi olli því að veginum var lokað og var fólki bent á hjáleið sem er 20 km lengri en sú sem liggur um Þjóðveg 1. Því ríkti einhver óvissa um hvort allir myndu ná í Landeyjahöfn í tæka tíð til að komast til Eyja. Að sögn Jónasar var hins vegar margt fólk komið til Eyja í gær og var hátíðin sett af heimamönnum um miðjan dag áður en barnadagskrá og síðan almenn skemmtidagskrá fór af stað.

Straumur af fólki fyrir norðan

Halldór Harðarsson, sem er í forsvari fyrir hátíðina eina með öllu á Akureyri, segir hátíðarhöld hafa gengið vel fyrir norðan. „Glæsileg byrjun. Við byrjuðum dagskrána á Glerártorgi og opnuðum hátíðina þannig á fimmtudaginn. Það var góð mæting og bæði dagskrá fyrir börnin um daginn og svo kvölddagskrá. Það gekk bara glimrandi,“ segir Halldór. Hann segir að fólk hafi streymt inn í bæinn í gær og tjaldsvæðin væru að fyllast. „Mér sýnist tjaldsvæðin öll vera nokkuð full. Við búumst við mörgum og það er spáð góðu veðri þannig að það er lítið hægt að kvarta. Allt komið í gang og sólin farin að skína.“

Mýrarboltinn hefst í hádeginu

„Þetta bara byrjar vel og komin svaka stemning á tjaldsvæðið,“ sagði Thelma Rut Jóhannsdóttir, ein af skipuleggjendum mýrarboltans í gærkvöldi þegar Morgunblaðið hafði samband. Engin dagskrá var fyrir vestan á fimmtudag og var skráningardagur fyrir mýrarboltann í gær. Keppni í sjálfum mýrarboltanum hefst í hádeginu í dag. Spurð um fjöldann sem tekur þátt í ár segir Thelma hann vera svipaðan og í fyrra. „Það hefur verið straumur inn í bæinn. Skráning í mýrarboltann hefur verið svipuð og í fyrra. Þetta er með öðruvísi sniði í ár. Það eru fleiri í liði og færri lið en var fyrir um þremur fjórum árum síðan, en töluverð stemming og mikið fjör.“ Skemmtidagskráin fyrir vestan hófst í gærkvöldi síðan með sveitaballi í félagsheimilinu í Bolungarvík.

Fjölskyldu- og bæjarhátíðin Flúðir um versló hófst á fimmtudaginn og að sögn forsvarsmanna hennar hafa fjölmargir gestir komið sér fyrir á tjaldsvæðinu á Flúðum. Hátíðin hófst með tónleikum KK bands í félagsheimilinu á Flúðum og voru tónleikarnir vel sóttir.