Helga Ísleifsdóttir fæddist 15. ágúst 1941. Hún lést 28. júní 2018.

Útför Helgu fór fram 11. júlí 2018.

Fallin er frá kær vinkona mín hún Helga Ísleifsdóttir eða Helga í Fossó eins og ég kallaði hana svo oft.

Mér var mikið brugðið þegar ég sá tilkynninguna í blöðunum um andlát og útför Helgu minnar. Ekki hafði ég heyrt af veikindum hennar.

Ég kynntist Helgu minni þegar ég byrjaði að vinna í Fossvogsskóla sem skrifstofustjóri fyrir tæpum 20 árum síðan. Helga var aðstoðarmaður hjá íþróttakennara og sá um íþróttasalinn ásamt fleiru. Daglega kíkti Helga á skrifstofuna til mín í pásunum sínum og spjölluðum við saman. Við höfðum báðar mikinn áhuga á handavinnu og var hún mjög handlagin og afkastamikil í handavinnunni. Matar- og kaffitímarnir okkar voru líflegir og þá sátum við saman ásamt fleirum og var mikið spjallað. Unnum við saman í Fossó í nokkur ár. Þegar ég kvaddi Fossvogsskóla og fór til annarra starfa þá héldum við Helga kunningsskapnum. Ég kynntist Ella hennar og kíkti ég til þeirra í kaffi og þau komu til okkar Nonna. Ár hvert komu þær til mín Helga og Svava vinkona okkar frá Fossvogsskóla og áttum við saman dásamlegar stundir, borðuðum góðan mat sem var skolað niður með góðum drykkjum og var mikið hlegið. Það var núna síðast í febrúar á þessu ári sem við sátum hérna í stofunni hjá mér og áttum svona dýrðarstund saman. Mikið á ég nú eftir að sakna þess að eiga ekki fleiri svona stundir með henni Helgu. Takk, Helga mín, fyrir allt og allt.

Ég þakka allt frá okkar fyrstu

kynnum

það yrði margt, ef telja skyldi það.

Í lífsins bók það lifir samt í minnum

er letrað skýrt á eitthvert hennar

blað.

Ég fann í þínu heita stóra hjarta,

þá helstu tryggð og vináttunnar ljós.

Er gerir jafnvel dimma vetur bjarta

úr dufti lætur spretta lífsins rós.

(Margrét Jónsdóttir)

Elsku Elli og fjölskylda, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.

Jóna.