Nám Finnur Freyr tekur sér frí frá meistaraflokksþjálfun.
Nám Finnur Freyr tekur sér frí frá meistaraflokksþjálfun. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Finnur Freyr Stefánsson, fyrrverandi þjálfari KR í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, er á leið í nám en þetta staðfesti hann í samtali við Morgunblaðið í gær.

Finnur Freyr Stefánsson, fyrrverandi þjálfari KR í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, er á leið í nám en þetta staðfesti hann í samtali við Morgunblaðið í gær. Þá stefnir hann á þjálfun yngri flokka, hjá öðru félagi en KR, en Finnur tilkynnti það í byrjun júnímánaðar að hann væri hættur þjálfun Íslandsmeistaranna eftir fimm í Vesturbænum þar sem hann gerði KR að Íslandsmeisturum í fimmgang og vann bikarkeppnina tvívegis.

„Það er lítið að gerast hjá mér þessa stundina. Ég ætla að taka því rólega á þessu keppnistímabili og ég stefni að því að taka að mér einhverja yngri flokka þjálfun. Ég er á leiðinni í fjarnám á Bifröst í miðlun og almannatengslum. Mig langaði að prófa eitthvað alveg nýtt og ég er spenntur fyrir þessu nýja verkefni.“

Ætlar að gefa KR frí

Finnur stefnir á það að taka að sér yngri flokka þjálfun á Íslandi en hann útilokar að vera áfram í Vesturbænum.

„Ég ákvað það strax að ég ætlaði mér ekki að hoppa á hvað sem er. Að mínu mati þá var ekkert nægilega spennandi sem poppaði upp, sem var þess virði að rífa fjölskylduna upp með rótum. Ég ætla að taka mér frí frá KR og gefa KR smá frí frá mér. Ég vil gefa Inga Þór og þjálfarateyminu smá svigrúm til þess að gera hlutina í friði, án þess að ég sé hangandi í kringum þá. Ég hef verið í viðræðum við nokkur félög og það gengur ágætlega. Ég vil helst vera á höfuðborgarsvæðinu og þetta ætti að skýrast hjá mér á næstu dögum,“ bætti Finnur við í samtali við Morgunblaðið. bjarnih@mbl.is