— Morgunblaðið/Júlíus
Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

„Þetta er svakalegt,“ segir Páll Ingvarsson, taugalæknir og sérfræðingur á endurhæfingardeild Landspítalans að Grensási, um tölur Samgöngustofu um stóraukinn fjölda umferðarslysa sem verða vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna, sem birtust í Morgunblaðinu í gær. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins slösuðust 47 í slysum af völdum fíkniefnaaksturs og nemur fjölgunin 124% milli ára.

Páll segir að tæmandi talning á komum á Grensásdeildina vegna áverka af völdum ölvunar- og fíkniefnaaksturs liggi ekki fyrir hjá Landspítalanum, en tilfinning heilbrigðisstarfsfólks á deildinni rími sannarlega við tölur Samgöngustofu.

Slysin verði alvarlegri

Samkvæmt spám Samgöngustofu gæti svo farið, ef fram fer sem horfir, að hátt í 20 manns lendi í alvarlegum slysum á þessu ári eða látist af völdum fíkniefnaaksturs. „Við tökum eftir því að það er nokkuð hátt hlutfall sem kemur til okkar til endurhæfingar sem hefur lent í slysum sem verða vegna aksturs undir áhrifum og þeim hefur síst farið fækkandi. Þetta er skýr áhættuþáttur að okkar mati,“ segir hann og nefnir að eitt augnablik í gáleysi geti kostað mánuði, ár eða jafnvel ævilöng örkuml.

„Slysin verða oftar en ekki alvarlegri og þyngri ef ölvun er inni í myndinni vegna þess gáleysis sem fylgir því að aka undir áhrifum. Það er alveg afdráttarlaust,“ segir Páll.

Áverkarnir alvarlegir

Algengustu áverkarnir við alvarleg umferðarslys eru af þrennum toga að sögn Páls, fjöláverkar, heila- og mænuskaði. „Við fjöláverka getur sjúklingurinn verið margbrotinn á útlimum, mjöðmum o.s.frv. Þá verða oft innri blæðingar sem geta verið lífshættulegar ef brot valda hnjaski á innri líffærum,“ segir hann. „Vegna heilaskaða verða mismikil, ævilöng mein. Þeir sem verða fyrir heilaskaða ná oft aldrei fyrri starfshæfni og getu. Stundum verður fólk algjörlega óvinnufært eftir heilaskaða,“ segir Páll.

Í þriðja lagi verða margir fyrir mænuskaða sem lenda í alvarlegum bílslysum. „Mænuskaði veldur lömun að meira eða minna leyti. Þetta getur gengið til baka við hlutskaða á mænu, en þegar mænan er tætt í sundur og alveg sundurmarin, þá fylgir oftar en ekki ævilöng lömun þannig að viðkomandi fær enga hreyfigetu neðan skaðans,“ segir Páll og nefnir einnig að milli 50 og 75% þeirra sem verði fyrir mænuskaða hafi ekki verið í bílbelti.

„Það eykur svo hættuna á því þegar viðkomandi er ölvaður, að sjálfsagðar öryggisráðstafanir eins og að vera í bílbelti séu ekki gerðar,“ segir hann.

Sumir komast aldrei aftur heim

Páll segir það mjög mismunandi hvaða árangri endurhæfing skili fyrir hvern og einn sjúkling. Sumir komist aldrei heim til sín á nýjan leik. „Við þekkjum ungt fólk undir 40 ára aldri, m.a. sem hefur áverka eftir bílslys, sem ekki sér fram á að komast heim til sín og bíður eftir plássi á hjúkrunarheimili. Þau eru vön að taka á móti áttræðum einstaklingum en ekki fertugum. Það er gríðarlegt vandamál að þessir einstaklingar fái ekki þá þjónustu sem þeir þurfa,“ segir Páll.

Alvarleg bílslys hafa ekki aðeins áhrif á þá sem lenda í bílslysunum, heldur einnig stóran hóp fólks í umhverfi þeirra. „Það er alveg augljóst að þegar einn einstaklingur lendir í alvarlegu slysi myndast hringir á vatninu. Ef fjölskyldumeðlimur lendir í slysi gjörbreytir það hversdagslífi þeirrar fjölskyldu, ættingja, vina og vinnufélaga,“ segir Páll og nefnir að dæmi séu um það að aðstandendur verði líka óvinnufærir.

„Margir fjölskyldumeðlimir taka slys og alvarleg veikindi svo nærri sér að þeir verða óvinnufærir til lengri eða skemmri tíma. Ef sjúklingur kemur heim og að hluta til er hægt að sinna honum með heimahjúkrun en ekki alveg, þá getur það skert vinnugetu annarra fjölskyldumeðlima,“ segir hann.