Félagsskapur getur verið afar áhrifarík hvatning.
Félagsskapur getur verið afar áhrifarík hvatning. — Getty Images/iStockphoto
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Erfitt getur verið að koma sér í form, sérstaklega ef hvatning er af skornum skammti. En hver er besta hvatningin til að mæta á æfingu og hreyfa sig? Pétur Magnússon petur@mbl.is

Sumarið er ekki annasamur tími hjá líkamsræktarstöðvum en það breytist á haustin þegar fólk flykkist á ný inn á stöðvarnar eftir sumarfrí. Ekki ósvipað því sem gerist í janúar þegar metnaðurinn vaknar úr dvala eftir jólafríið.

Hefur hvatningarleysi reynst ýmsum þrándur í götu á leið til heilbrigðara lífernis, en vegna þess hafa spekingar víða um heim varpað fram þeirri spurningu: hvað hvetur fólk til að hreyfa sig?

Hvað hvetur þig áfram?

Æfingartilhvati (e. exercise motivation) er víða rannsakaður. Einn fremsti rannsakandi æfingartilhvata er hreyfingafræðingurinn Philip M. Wilson. Samkvæmt rannsóknum Wilsons er innri tilhvötun kjörin til að skapa langvarandi æfingarvana. Innri tilhvötun er skilgreind í Orðbanka íslenskrar málstöðvar sem „hvatning, þar sem náið samband er milli verknaðar og markmiðsins með honum, t.d. þegar verk er unnið fremur af áhuga á starfinu sjálfu en vegna verkalauna“. Það er að segja að besti tilhvatinn sé einlægur áhugi á æfingunni sjálfri frekar en fylgifiskum hennar, svo sem þyngdartapi eða stæltum magavöðvum.

Þó er hægara sagt en gert að þróa með sér einlægan áhuga á kviðæfingum eða hlaupabrettahlaupum. Þegar innri tilhvötun er ekki til staðar, samkvæmt rannsóknum Wilson, er það að æfa sig vegna þess að þú veist að það er gott fyrir þig, eða vegna þess að þú vilt vera manneskja sem æfir sig, betri hvatning heldur en að æfa sig vegna þess að þér liði illa með sjálfan þig ef þú gerðir það ekki, eða vegna ótta um að engum muni finnast þú aðlaðandi.

Tilgangur mikilvægur

Rithöfundurinn Dan Pink, sem skrifað hefur ítarlega um hvata, telur þrjá hluti hvetja okkur áfram í því sem við tökum okkur fyrir hendur, meðal annars hreyfingu. Sá fyrsti er sjálfstjórn, eða eiginleikinn að geta gert eitthvað sem við höfum áhuga á að gera, en rétt eins og í hverju öðru er auðveldara að halda sig við efnið þegar maður hefur áhuga á því.

Annar hluturinn er leikni, eða tilfinningin að þú sért að verða betri í því sem þú gerir. Sama hvort um sé að ræða liðleika, styrk, úthald eða aðra hæfni hjálpar það mikið til að hvetja mann áfram.

Þriðji hluturinn, að sögn Pink, er tilgangur, eða viljinn til að gera eitthvað mikilvægt.

Eiga þessir þrír hlutir við hvatningu til æfinga, en einnig við hvatningu almennt.

Hópurinn hjálpar

Félagsskapur er einnig áhrifarík hvatning til æfinga, en mikið hefur verið skrifað á heilsubloggum um áhrif félagsskapar á æfingarhvata. Rannsóknir benda til þess að auðveldara sé að rífa sig upp og mæta á æfingu ef það er gert í hóp, þar sem félagar halda hver öðrum ábyrgum fyrir því að mæta. Betri æfing gæti einnig náðst ef æft er í hóp þar sem fólk hvetur hvert annað áfram.

Vinsældir hlaupahópa, Crossfit og hóp-yoga eru dæmi um að fólk leiti í auknum mæli í hreyfingu sem er í eðli sínu félagsleg.