Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Akstur undir áhrifum leiðir oftar en ekki til alvarlegri bílslysa, að sögn Páls Ingvarssonar, taugalæknis og sérfræðings á endurhæfingardeild Landspítala að Grensási.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Akstur undir áhrifum leiðir oftar en ekki til alvarlegri bílslysa, að sögn Páls Ingvarssonar, taugalæknis og sérfræðings á endurhæfingardeild Landspítala að Grensási.

Hann segir tilfinningu heilbrigðisstarfsfólks á Grensásdeild ríma við tölur Samgöngustofu um stóraukinn fjölda slysa af völdum fíkniefnaaksturs. Páll segir að sumir þeirra sem verði fyrir alvarlegum áverkum komist jafnvel aldrei heim til sín eftir endurhæfingu eftir alvarleg slys.

Eitt augnablik oft afdrifaríkt

„Manni finnst það gremjulegt þegar eitt augnablik vangár og vanhugsunar leiðir til þess að fólk þurfi að umgangast okkur hér á endurhæfingardeildinni mánuðum saman og komist jafnvel ekki héðan heim til sín. Það er gremjulegt að hugsa til þess að mörg þessara tilvika hefðu ekki þurft að eiga sér stað,“ segir Páll. Afleiðingar alvarlegra bílslysa hafi einnig gríðarleg áhrif á fjölskyldur og aðra aðstandendur þeirra sem lenda í slysum.