Aðalsteinn Kristbjörn Sigfússon, eða Teddi eins og hann var oftast kallaður, fæddist þann 25. júní 1937 í Hvammi í Þistilfirði. Hann lést 15. júlí 2018.

Foreldrar hans voru þau Sigfús Aðalsteinsson og Margrét Jensína Magnúsdóttir. Þau áttu 13 börn og hún eina dóttur fyrir, Sigurbjörgu, og var Teddi 7. í röðinni af alsystkinunum. Aðalsteinn Jón, Jóhanna, Haraldur, Sigríður Þóra, Magnús Þórsteinn, Björn Jóhann, Aðalsteinn Kristbjörn, Aðalbjörg Jóna, Hanna, Nanna, Sigurður og Bára Sigfúsarbörn. Af þeim eru fimm enn á lífi.

Teddi ólst upp við hefðbundin kjör og störf þessi tíma. Hann fór ungur að taka til hendinni og var duglegur og ósérhlífinn til allra verka. Teddi eignaðist Rúnar Óla 1964 með Sigurveigu Tryggvadóttur, Þórhall 1964 með Sigrúnu Jónsdóttur og þau Írisi 1965, Emilíu 1971 og Sigfús 1973 með eiginkonu sinni Guðrúnu Emilíu Guðnadóttur.

Útför fór fram frá Þórshafnarkirkju 21. júlí 2018.

Hann Aðalsteinn er fallinn frá og mikið söknum við hans, nágrannarnir við Þistilfjörð. Fyrir einu ári – rúmlega – hélt „Teddi“ upp á áttræðisafmæli sitt með stæl.

Þá var ekki að sjá á honum að þar færi sjúkur maður,en fáum mánuðum seinna greindist alvara á ferðum – ristilkrabbi.

Í mínu barnsminni er Teddi að hjálpa til við að dreifa skít í flag hjá pabba mínum, Eggerti í Dal, og einu eða tveimur árum seinna náði pabbi honum í heyhirðingu og var ánægður með vinnumanninn þá 18 eða 19 ára dreng.

Á því reki og fram eftir þrítugsaldrinum var Aðalsteinn maður einhleypur og var víða, oftast á Suðurnesjum vetrartímann ýmist á sjó eða í landvinnu og þénaði stundum mikið.

Fláning í sláturhúsinu á Þórshöfn var eitt af þeim verkum sem léku í höndum Tedda. Í nokkur ár var mikil festa í liðinu, Hermann, Addi, Teddi og Eiríkur, ef engan þeirra vantaði gekk vel að lóga 5-600 lömbum á dag og undantekning að skrokkur félli á húsið, þ.e. ekki útflutningshæfur fyrir verkunargalla, t.d. himnurifinn.

Árið 1963 gerðist það í Hvammi að mágarnir Benedikt Sölvason og Aðalsteinn hófu byggingu parhúss, vandað steinhús og þóttu tíðindi mikil, en á þessum árum var stöðug fækkun fólks í sveitinni, síldin að veiðast og peningavonin þar. Og af þeim miðum voru sannanlega komnir aurarnir sem dugðu til húsbyggingar, í það minnsta hjá Benna og Öbbu og þau voru fljót að koma upp sínum hluta hússins.

En eins og gengur hjá fleirum, Teddi var ekki kominn með neina ákveðna konu og þegar það varð, byrjaði heimilishald suður í Sandgerði en íbúðin uppsteypt í Hvammi, var þar ónotuð í mörg ár þar til að Haraldur bróðir hans fékk hana keypta.

Teddi hvarf úr sveitinni í 25 ár en við vissum af honum og einu sinni að vetrarlagi gerðu foreldrar mínir, Elín og Eggert, þeim Millu heimsókn í Sandgerði og létu vel af móttökunum.

Það áttu líka fleiri eftir að reyna, hvað veisluborð Aðalsteins voru góð. Það var meira en venjulegt, og það af karlmanni, hvað vel honum fórst matreiðsla.

Eftir langa vist á Suðurnesjum urðu þáttaskil hjá Aðalsteini og við fengum hann heim í Þistilfjörð og menn komust fljótt að því hvað hann var snjall spilamaður og á Höfða er oft búið að draga í stokk. Allt frá í vetrarbyrjun 2003 eru sömu fósarnir búnir að mætast, vetrartímann í hverri viku og síðustu árin stundum á sumrin og hefur þessi félagsskapur gefið okkur mikið, get ég fullyrt.

Ekki bara afþreyinguna heldur líka seinkar það elliglöpum að spila brids, menn verða þá að hugsa. Stundum mistekst það og þá sagði Teddi: „Þið lærið aldrei að spila.“ Já, hann var gagnyrtur og skemmtilegur.

Eitt sinn er við vorum að bera okkur saman um hvað við munum elst, sagði ég m.a. að í Dal hefði verið talað um Aðalstein í Hvammi (afa Tedda) af mikilli virðingu, þá sagði hann „Þeir hlýddu honum karlarnir, ég held hann hafi verið höggfastur“, og það sama gilti um hann sjálfan.

Ekki skal taka þetta svo að hann Teddi hafi verið illindamaður, öðru nær, og í skemmtanalífinu veitti hann konum alla sína orku.

Vertu sæll, vinur.

Stefán Eggertsson

í Laxárdal.