Við Hvítserk Sæunn, Kjartan Örn og dætur á ferðalagi í sumar.
Við Hvítserk Sæunn, Kjartan Örn og dætur á ferðalagi í sumar.
Við erum í hálfgerðri afmælisferð núna, erum komin á fornar slóðir í Suður-Frakklandi,“ segir Sæunn Stefánsdóttir, sem á 40 ára afmæli í dag.

Við erum í hálfgerðri afmælisferð núna, erum komin á fornar slóðir í Suður-Frakklandi,“ segir Sæunn Stefánsdóttir, sem á 40 ára afmæli í dag. „Ég var í frönskunámi í Montpellier eftir að ég kláraði menntaskólann ásamt góðum vinum og er nú að sýna fjölskyldu minni og tengdafólki þær slóðir. Í dag ætlum við að njóta lífsins eins og alla aðra daga hérna í sólinni og á ströndinni með góðum frönskum mat og vínum,“ en þau eru stödd í Saint-Chamant nærri Aix-en-Provence.

Sæunn er forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands ásamt því að vera sérfræðingur á skrifstofu rektors. Háskólinn rekur níu rannsóknasetur víða um land. Þar eru fjölbreyttar rannsóknir stundaðar, m.a. á fuglum, hvölum, þorski, náttúru landsins, þjóðfræði, fornleifafræði og sagnfræði. „Ég er svo heppin að fá að leiða stofnunina og sé helst um stefnumótun, fjármál og stjórnun stofnunarinnar. Á undanförnum tveimur árum höfum við sett tvö rannsóknasetur á fót, þjóðfræðisetur á Ströndum, á Hólmavík, fyrir tveim árum og í sumar fórum við aftur af stað með rannsóknasetur á Austurlandi, á Egilsstöðum, þar sem sagnfræðirannsóknir eru stundaðar.

Við fjölskyldan erum útivistarfólk og okkur finnst gaman að fara saman á fjöll og á skíði,“ segir Sæunn um áhugamálin. „Við gengum t.d. í sumar í Stórurð í Borgarfirði eystra, en það er magnað náttúrufyrirbrigði.“

Eiginmaður hennar er Kjartan Örn Haraldsson, jarðfræðingur og grunnskólakennari í Háaleitisskóla. Dætur þeirra eru Kristrún Edda, tíu ára, og Auður Embla, fimm ára.