Leikurinn um enska Samfélagsskjöldinn er á sunnudaginn næsta þegar Chelsea og Manchester City mætast á Wembley. Leikurinn er ekki þekktur fyrir það að vekja áhuga knattspyrnuáhugamanna.
Leikurinn um enska Samfélagsskjöldinn er á sunnudaginn næsta þegar Chelsea og Manchester City mætast á Wembley. Leikurinn er ekki þekktur fyrir það að vekja áhuga knattspyrnuáhugamanna. Hins vegar markar leikurinn upphafið á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni sem er vissulega mikið fagnaðarefni. Persónulega finnst mér eins og deildin hafi klárast í síðustu viku en við sem höfum áhuga á fótbolta getum seint kvartað yfir þessu knattspyrnuári.

Það er óneitanlega kominn ákveðinn fiðringur í mann fyrir ensku úrvalsdeildinni. Vonandi verður deildin jafnari í ár en hún var í fyrra. Liðin sem enduðu í efstu tveimur sætum deildarinnar, Manchester City og Manchester United, hafa hvorugt styrkt sig mikið í sumar. Að sama skapi hafa liðin sem enduðu fyrir neðan þau, sérstaklega Arsenal og Liverpool, styrkt sig mikið.

Stuðningsmenn Arsenal eru löngu hættir að gera sér vonir um að liðið þeirra geri atlögu að enska úrvalsdeildartitlinum. Þeir eru hins vegar með mannskapinn til þess að blanda sér í alvörubaráttu um titilinn í ár, að mati undirritaðs. Chelsea gæti líka komið á óvart en stuðningsmenn liðsins eru bjartsýnir eftir komu Maurizio Sarri.

Tottenham hefur að sama skapi ekki styrkt sig mikið, sem gæti orðið liðinu að falli en stuðningsmenn Liverpool eru mjög bjartsýnir. Það er pressa á Jürgen Klopp að skila titli í hús eftir eyðslu sumarsins. Eðlilega gera stuðningsmenn liðsins þá kröfu núna að liðið vinni fleiri en einn titil í ár. Sem er auðvitað fullkomlega eðlilegt hjá liði sem vann síðast titil fyrir átta árum.