Barcelona Kári Jónsson steig stórt skref á sínum ferli í gær
Barcelona Kári Jónsson steig stórt skref á sínum ferli í gær — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Kristján Jónsson kris@mbl.is Kári Jónsson varð í gær fimmti Íslendingurinn til að semja við Barcelona.

Fréttaskýring

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Kári Jónsson varð í gær fimmti Íslendingurinn til að semja við Barcelona. Líklegt má telja að þar sé um frægasta íþróttafélag í heimi að ræða enda hafa lið félagsins í knattspyrnu, handknattleik og körfuknattleik verið á meðal þeirra bestu í Evrópu áratugum saman. Kári er fyrsti Íslendingurinn sem fær samning hjá körfuboltaliði Barcelona sem tvívegið hefur orðið Evrópumeistari

Félagið greindi frá þessum tíðindum á heimasíðu sinni í gær en á fimmtudag höfðu spænskir fjölmiðlar fjallað um að þetta gæti orðið niðurstaðan. Félagið kynnti á sama tíma Tyler Rawson til sögunnar. Samkvæmt tilkynningu Barcelona er þeim báðum ætlað að leika með varaliði félagsins næsta vetur en liðið leikur í b-deildinni. Þar kemur fram að Kári hafi samið til eins árs við Barcelona og fær því veturinn til að sanna sig. Kári mun mæta til starfa hjá Barcelona hinn 6. ágúst og verður undir handleiðslu Diego Ocampo sem mun stýra varaliðinu en hann er jafnframt nýkominn til félagsins og kom til Barcelona í júní.

Viggó ruddi brautina

Tveir Íslendingar eru nú leikmenn Barcelona en slíkt hefur ekki gerst fyrr. Aron Pálmarsson leikur sem kunnugt er með handboltaliði félagsins. Báðir eru þeir Aron og Kári Hafnfirðingar. Ísland er nú ekki stærra en svo að feður þeirra léku saman í meistaraflokki Hauka í þrjú keppnistímabil á Íslandsmótinu í körfuknattleik en þar er um að ræða þá Pálmar Sigurðsson og Jón Arnar Ingvarsson. Aðrir íslenskir íþróttamenn sem leikið hafa með Barcelona eru handboltamennirnir Viggó Sigurðsson og Guðjón Valur Sigurðsson auk knattspyrnumannsins Eiðs Smára Guðjohnsen. Þeir Guðjón og Eiður urðu báðir Evrópumeistarar með Barca.

Vakti athygli á EM 20 ára

Hvernig stendur á því að 21 árs gamall Íslendingur fær tækifæri til að sanna sig hjá körfuboltaliði Barcelona? Eitthvað segir það okkur um hversu hæfileikaríkur Kári er en undirstrikar einnig hversu mikil auglýsing það var fyrir íslensku leikmennina þegar U-20 ára landsliðið komst í 8-liða úrslit á EM í fyrra. Þar vakti Tryggvi Snær Hlinason einnig mikla athygli eins og Kári.