[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Makrílvertíðin hefur í heildina farið rólega af stað, en sumar útgerðir byrjuðu seinna á makrílnum heldur en síðustu ár. Afli er nokkru minni núna heldur en hann var á sama tíma í fyrra.

Fréttaskýring

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Makrílvertíðin hefur í heildina farið rólega af stað, en sumar útgerðir byrjuðu seinna á makrílnum heldur en síðustu ár. Afli er nokkru minni núna heldur en hann var á sama tíma í fyrra. Þá voru 34 þúsund tonn komin á land, en í ár er búið að landa 21 þúsund tonni samkvæmt yfirliti á vef Fiskistofu, en ekki er víst að allar aflaskýrslur hafi skilað sér. Alls eru heimildir ársins um 145 þúsund tonn með flutningi á milli ára.

Þessa dagana virðist makríllinn vera dreifðari en síðustu ár, en hans hefur orðið vart víða og útbreiðslusvæðið virðist vera stórt. Góður afli fékkst við Suðurland um tíma í júlí, en undanfarið hefur gengið illa að finna hreinan makríl. Víða hefur blönduð síld veiðst með makrílnum og þá bæði íslensk sumargotssíld og norsk-íslensk vorgotssíld, sem menn eru ekki að sækjast eftir á þessum árstíma.

Í gær voru nokkur uppsjávarskip að veiðum dreift út af sunnanverðum Austfjörðum og hins vegar á svæði í grænlenskri lögsögu vestur af Snæfellsnesi. Þar virtist vera talsvert af makríl á ferðinni, en samkvæmt fréttum þaðan var afli misjafn eftir blettum.

„Þetta hefur áður verið erfitt á þessum tíma, en því er ekki að neita að þetta er þungt,“ sagði Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, í gær. Hann sagðist vona að afli glæddist á næstunni, en kraftur hefur oft verið í makrílveiðum fram eftir septembermánuði.

Nota helgina til að leita

Uppsjávarskip fyrirtækisins, Börkur og Beitir, eru búin að landa makríl einu sinni hvort skip og hófst vinnsla á makríl í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar á miðvikudag. Skipin héldu bæði til veiða í gær, en engin vinnsla verður í gangi um verslunarmannahelgina.

„Ég get alveg viðurkennt að mér hefur oft liðið illa yfir því að stoppa vinnsluna á þessum dögum. Núna er ég alveg rólegur því það hefur verið svo lítil veiði. Uppsjávarskipin eru hins vegar að fara á sjó og nota helgina til að leita,“ sagði Gunnþór.

Hjá Síldarvinnslunni var landað 17.400 tonnum af kolmunna úr íslenskri lögsögu í júlí. Bjarni Ólafsson AK var með tæp 6.400 tonn, Börkur NK 5.400 tonn, Beitir NK 3.300 tonn og önnur skip 2.300 tonn.

Þætti Íslendinga í sameiginlegum togleiðangri með Norðmönnum, Færeyingum og Grænlendingum lauk í vikunni. Framundan er samkeyrsla og úrvinnsla á gögnum og verða helstu niðurstöður kynntar undir lok mánaðarins.

Viðmælendur blaðsins í gær höfðu á orði að göngumynstur makrílsins virtist vera annað í ár heldur en undanfarin ár. Þar gæti ótíð og heldur lægri yfirborðshiti sjávar fyrir sunnan land haft áhrif.

Söluhorfur á makríl héðan eru taldar góðar og hefur verð hækkað frá síðustu vertíð. Engar birgðir munu vera í landinu. Makríll hefur síðustu ár verið seldur héðan víða um heim, m.a. til Austur-Evrópu, Afríku og Asíu. Rússlandsmarkaður, sem áður var mjög mikilvægur fyrir íslenskt sjávarfang, er undanskilinn því frá miðju sumri 2015 hefur verið í gildi bann Rússa á innflutningi á sjávarafurðum frá Íslandi.