Höskuldur Ólafsson
Höskuldur Ólafsson
Arion banki hyggst móta stefnu varðandi framtíðareignarhald á dótturfélagi bankans, Valitors, fyrir lok árs. Bankinn hefur fengið til liðs við sig erlenda ráðgjafa, sem að sögn Höskuldar H.

Arion banki hyggst móta stefnu varðandi framtíðareignarhald á dótturfélagi bankans, Valitors, fyrir lok árs. Bankinn hefur fengið til liðs við sig erlenda ráðgjafa, sem að sögn Höskuldar H. Ólafssonar bankastjóra er eitt af stærri ráðgjafafyrirtækjum heims. Þetta kom fram á blaðamannafundi í Arion banka í gær þar sem Höskuldur, ásamt Stefáni Péturssyni, framkvæmdastjóra fjármálasviðs bankans, fóru yfir uppgjör bankans fyrir fyrstu sex mánuði ársins.

Einn valmöguleikinn er að Arion banki haldi áfram að styðja við Valitor til þess að auka virði félagsins. Hin leiðin, sem er líklegri að sögn Höskuldar, væri að selja félagið að hluta eða öllu leyti. Þónokkrar fyrirspurnir hafi borist um Valitor og áhuginn virðist mikill. Kom það einkum fram við skráningu bankans á markað fyrr í sumar, að sögn Höskuldar.

Mikil hreyfing er á félögum í þessum geira að sögn Stefáns, sem nefnir sem dæmi kaup bandaríska fyrirtækisins PayPal á sænska fjártæknifyrirtækinu iZettle nýverið. Virðast því eldri og stærri fyrirtæki í geiranum, með eldri kerfi, vera að fjárfesta í auknum mæli í smærri fyrirtækjum sem bjóða upp á lausnir sem henta nútíma viðskiptaháttum. Því hefur verið mikil áherslu á vöxt Valitors, en þar geti Arion banki að mestu leyti aðeins stutt við fyrirtækið á innlendum markaði.

Væntir breytingar í stjórn

Stjórn Arion banka hyggst boða til hluthafafundar í næsta mánuði og leggja fram tillögu um 10 milljarða króna sérstaka arðgeiðslu. Búast má við einni breytingu í stjórn Arion banka á hluthafafundinum en að sögn Höskuldar er eðlilegt að einhver hreyfing verði á stjórn í ljósi nýrra eigenda. peturhreins@mbl.is