[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Farsæll ferill Mesta verðlaunafé á einu stórmóti í tölvuleikjum var afhent á heimsmeistaramótinu í Dota 2 sem haldið var í Seattle árið 2017, en heildarupphæðin nam 24,6 milljónum bandaríkjadala eða 2,6 milljörðum króna.

Farsæll ferill

Mesta verðlaunafé á einu stórmóti í tölvuleikjum var afhent á heimsmeistaramótinu í Dota 2 sem haldið var í Seattle árið 2017, en heildarupphæðin nam 24,6 milljónum bandaríkjadala eða 2,6 milljörðum króna. Langmestur hluti verðlaunafjárins á mótinu var fjármagnaður af aðdáendum leiksins.

Verðlaunaféð skiptist á milli allra liðanna sem tóku þátt á mótinu, og fengu sigurvegararnir í Team Liquid 10,8 milljónir dala í sinn hlut eða um 1,1 milljarð króna.

Fyrirliði Team Liquid, Kuro „Kuroky“ Salehi Takhasomi, hefur á ferlinum sankað að sér meira verðlaunafé en nokkur annar leikmaður, samanlagt ríflega 3,7 milljónum dala eða sem nemur 399 milljónum króna.

Áhorf og þjóðarstolt

Mesta áhorf á tölvuleik var á lokaleik MSI boðsmótsins í League of Legends í ár, þar sem kínverska liðið Royal Never Give Up bar sigur út býtum gegn suður-kóreska liðinu KingdragonX. Alls horfðu yfir 127 milljónir áhorfenda á lokaleikinn, þar af 126 milljónir frá Kína þar sem er gríðarmikill áhugi á leiknum.

Vinsæl samkoma

Fjölmennasti tölvuleikjaviðburður heims voru samfleytt mót ESL og Intel sem haldin voru í Katowice í Póllandi árið 2017, en þangað komu 173 þúsund manns í heildina til að horfa á mót í fjölmörgum leikjum á borð við Counter-Strike: Global Offensive, Starcraft og League of Legends.

Djúpir vasar

Fortnite hefur aflað sér gríðarlegra vinsælda á skömmum tíma, en fyrr á árinu tilkynntu Epic Games, framleiðendur leiksins, að þeir myndu leggja fram 100 milljón dali, um 10,7 milljarða króna, í verðlaunafé fyrir keppnissenu leikjarins fyrir tímabilið 2018-2019. Þetta er mun hærri upphæð en nokkurt annað fyrirtæki hefur lagt til í verðlaunafé til þessa.