Ásgeir Sigurvinsson Með fyrirliðabandið í leik með Stuttgart 1986.
Ásgeir Sigurvinsson Með fyrirliðabandið í leik með Stuttgart 1986. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Ásgeir Sigurvinsson verður meðal leikmanna í stjörnuliði Stuttgart á 125 ára afmælishátíð félagsins í Þýskalandi á morgun.

Ásgeir Sigurvinsson verður meðal leikmanna í stjörnuliði Stuttgart á 125 ára afmælishátíð félagsins í Þýskalandi á morgun. Goðsagnir í knattspyrnusögu félagsins stíga þá á sviðið áður en núverandi leikmenn Stuttgart leika sjálfan afmælisleikinn gegn sigurvegurum Atletico Madrid í Evrópudeildinni síðasta vor.

Meðal eldri leikmanna Stuttgart í leik morgundagsins má auk Ásgeirs nefna Jürgen Klinsmann, Guido Buchwald, Bernd Förster, Krassimir Balakov, Hansi Müller, Carlos Dunga og Felix Magath. Fram kemur á heimasíðu félagsins að leiktími gömlu leikmannanna verði 20 mínútur hvor hálfleikur.

Ásgeir lék með Stuttgart frá 1982 til 1990, alls 194 leiki í þýsku Bundesligunni og skoraði í þeim 38 mörk. Hann var valinn knattspyrnumaður ársins í Þýskalandi 1984 af leikmönnum Bundesligunnar. Ásgeir var kosinn íþróttamaður ársins hérlendis 1974 og 1984 og var tilnefndur í heiðurshöll ÍSÍ fyrir þremur árum.

Stuttgart 5 sinnum meistari

Ásgeir varð Þýskalandsmeistari með Stuttgart vorið 1984, en alls hefur félagið fimm sinnum hampað meistaratitlinum. Ásgeir er 63 ára gamall, en Eyjólfur Sverrisson sem varð meistari með Stuttgart 1992 fagnaði hálfrar aldar afmæli í gær. aij@mbl.is