Náttúruvá Skaftárhlaupið 2015 var það stærsta í manna minnum.
Náttúruvá Skaftárhlaupið 2015 var það stærsta í manna minnum. — Morgunblaðið/Jónas Erlendsson
Nína Guðrún Geirsdóttir ninag@mbl.is Skaftárhlaup hófst síðdegis í gær. Í kjölfarið lýsti ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi, yfir óvissustigi almannavarna. „ Þetta er neðsta þrepið.

Nína Guðrún Geirsdóttir

ninag@mbl.is

Skaftárhlaup hófst síðdegis í gær. Í kjölfarið lýsti ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi, yfir óvissustigi almannavarna. „ Þetta er neðsta þrepið. Ef ástandið magnast upp förum við á næsta þrep og er fólk í viðbragðsstöðu á öllum vígstöðvum,“ segir Hjálmar Björgvinsson, deildarstjóri hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Hlaupið fór fyrr af stað en áætlað var og kom veðurfræðingum á óvart, að sögn náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofunni.

Þá bendir allt til þess að rennslisaukning sé meiri en í stóra Skaftárhlaupinu 2015 og fari það hraðar niður en von var á. Veðurstofan hefur varað við mannaferðum á þessum slóðum m.a. vegna losunar eitraðra gastegunda úr hlaupvatninu. Í gær vann hópur björgunarsveitarmanna við rýmingu á nærliggjandi svæðum þar sem gönguhópa var að finna. Telur Veðurstofan líklegt að rennslið nái hámarki við Ása og Kirkjubæjarklaustur í dag. Mun hámarkið líklegast standa í nokkrar klukkustundir og eftir það mun draga hægt úr hlaupinu.

Þá lýsti fjarskiptafyrirtækið Míla yfir óvissustigi á Suðurlandi vegna hlaupsins en strengjakerfi Mílu liggja um vatnasvæði Skaftár og er því viðbúið að hlaupið geti haft áhrif á fjarskiptasambönd á svæðinu.