Barátta Stuðningsmenn lögleiðingar fóstureyðinga hugga hver annan í fyrrinótt eftir að frumvarpinu var hafnað á þingi Argentínu.
Barátta Stuðningsmenn lögleiðingar fóstureyðinga hugga hver annan í fyrrinótt eftir að frumvarpinu var hafnað á þingi Argentínu. — AFP
Þorgrímur Kári Snævarr thorgrimur@mbl.is Öldungadeild argentínska þingsins hafnaði í gærmorgun frumvarpi um lögleiðingu frjálsra fóstureyðinga fram á fjórtándu viku meðgöngunnar.

Þorgrímur Kári Snævarr

thorgrimur@mbl.is

Öldungadeild argentínska þingsins hafnaði í gærmorgun frumvarpi um lögleiðingu frjálsra fóstureyðinga fram á fjórtándu viku meðgöngunnar. Þingmenn deildu um frumvarpið í rúmar fimmtán klukkustundir en kusu að endingu með 38 atkvæðum gegn 31 að fella það. Fulltrúadeild þingsins hafði samþykkt frumvarpið í júní og forseti landsins, Maurico Macri, hafði lýst yfir að hann myndi skrifa undir lögin ef þau hlytu staðfestingu á þingi.

Frumvarpið naut nokkuð víðtæks stuðnings argentínskrar alþýðu en kaþólska kirkjan hafði mótmælt því og hvatt þingmenn til þess að hafna því. Frans páfi, sem nýtur talsverðra áhrifa í stjórnmálum heimalands síns, hafði sjálfur lýst yfir andstöðu við það.

Skiptar skoðanir

Andstæðingar frumvarpsins fögnuðu með húrrahrópum og skutu upp flugeldum þegar tilkynnt var að því hefði verið hafnað. „Atkvæðagreiðslan sýnir að Argentína er enn land sem styður gildi fjölskyldunnar,“ sagði einn þeirra við Reuters .

Aðrir voru ekki eins himinlifandi. Mariela Belski, formaður Amnesty International í Argentínu, kallaði höfnun frumvarpsins „ófyrirgefanlegt skref aftur á við“ og bætti við: „Löggjafarmenn kusu í dag að snúa baki við hundruðum þúsunda kvenna og stúlkna sem hafa barist fyrir kynferðis- og líkamsréttindum sínum.“