[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Steingrímur Eyjólfsson steingrimur@mbl.is Vöxtur í sölu snjall- og heilsuúra hefur verið með mesta móti síðastliðin ár. Samkvæmt bráðabirgðaáliti Tollstjóra voru flutt inn 6.503 snjall- og heilsuúr til landsins á fyrri helmingi ársins.

Baksvið

Steingrímur Eyjólfsson

steingrimur@mbl.is

Vöxtur í sölu snjall- og heilsuúra hefur verið með mesta móti síðastliðin ár. Samkvæmt bráðabirgðaáliti Tollstjóra voru flutt inn 6.503 snjall- og heilsuúr til landsins á fyrri helmingi ársins. Það er 220% aukning frá sama tímabili árið 2016.

Í samtali við Morgunblaðið segir Hjörvar Freyr Hjörvarsson, vörustjóri síma- og heilsuflokks Elko, að sprenging hafi verið í sölu á snjallúrum árið 2016, en síðan þá hefur aukningin verið nokkuð stöðug. Samkvæmt tölum sem Hjörvar sendi blaðamanni, þá jókst salan 2016 um 138% í þessum vöruflokki, miðað við árið á undan. Árið 2017 hafi salan verið með svipuðu móti og 2016 en í ár sé aukningin um 6%, miðað við sama tíma í fyrra.

Kippur í kjölfar heilsubyltingar

Aðspurður hvernig þróunin hefur verið undanfarin ár í sölu á snjall- og heilsuúrum, segir Hjörvar að hún hafi verið mjög góð.

„Það var ekki mikið um þessi úr fyrir 2014, en síðan þá hefur þetta aukist gríðarlega mikið,“ segir Hjörvar. „Það var með þessari heilsubyltingu hér á landi, fólk byrjaði að hjóla og hlaupa miklu meira, sem við sáum mikinn kipp í sölu á úrunum. Það var mikil aukning, bæði árið 2015 en sérstaklega árið 2016. Síðan þá hefur þetta verið nokkuð stöðug sala. Fólk er ekki að endurnýja þetta jafn oft og símana sína en við sjáum aftur á móti fleiri sem eru að nota þessi tæki.“

Orðnir glæsilegir skartgripir

Ríkarður Sigmundsson, framkvæmdastjóri Garmin-búðarinnar tekur í sama streng og Hjörvar. Hann segir mikla sprengingu í sölu undanfarin ár og að í fyrra hafi hann séð merki um að sala dýrari úra væri meiri.

„Í stað þess að viðskiptavinirnir séu að kaupa úr sem kosta 25 þúsund, þá sjáum við þá frekari sölu í millidýrum úrum,“ segir Ríkarður. „Dýrustu úrin hjá okkur hafa einnig selst vel, en það er stöðug sala á þeim.“

Ríkarður segir að snjall- og heilsuúrin séu að færast úr því að líta út eins og æfingaúr í að verða glæsilegri skartgripir sem fólk klæðist hversdagslega.

„Þróunin hjá okkur virðist vera að fara frá þessu einfalda bandi, sem nefnist Vivosmart, sem var vinsælast hjá okkur og selst enn mjög vel, yfir í að sölu á úrum sem eru með flottari skjá og líta meira út eins og fallegt úr.“

Breidd viðskiptavina mikil

Bæði Hjörvar og Ríkarður eru sammála um að sala á snjall- og heilsuúrum hafi færst frá því að vera einungis fyrir mjög virkt íþrótta- og útivistafólk, yfir í að vera fyrir alla.

„Í byrjun var þetta mestmegnis íþróttafólk, hlauparar og aðrir, sem keyptu þessi tæki hjá okkur,“ segir Ríkarður. „Þetta hefur færst úr því að vera fyrir þá yfir í hinn venjulega mann. Fólk er til dæmis mjög áhugasamt um svefn og svefnvenjur hjá sér. Margir eru að kaupa sér úr fyrst og fremst út af því, eða til þess að hafa hvata til þess að labba og hreyfa sig á hverjum degi.“

Hjörvar segir að árið 2016 hafi salan færst mikið úr því að vera fyrir íþróttafólk, yfir í að vera fyrir alla.

„Það eru alls konar týpur sem kaupa sér svona úr, í rauninni allir. Þú sérð ekki utan á fólki hvort að það kaupi snjallúr eða ekki,“ segir Hjörvar.

Garmin-úrin vinsælust

Ríkarður segir að helstu keppinautar Garmin séu ekki endilega þeir sömu hér á landi og erlendis. „Maður hefur lítið orðið var við þessa keppinauta eins og Fitbit, Polar og Tomtom. Það eru aðallega Samsung- og Apple-úrin hér heima. Það eru flott snjallúr, en þegar kemur að sérhæfingu, eins og að ganga á fjöll, hlaupa, skíða og þess háttar þá eru þau langt á eftir.“

Hjörvar segir að hjá Elko séu Garmin enn sterkastir, en að Samsung fylgi þeim fast á eftir.