Fasteignir Frá því í maí 2017 hefur sérbýli hækkað 7% meira en fjölbýli.
Fasteignir Frá því í maí 2017 hefur sérbýli hækkað 7% meira en fjölbýli. — Morgunblaðið/Ómar
Hlutfall íbúða sem seljast yfir ásettu verði í fasteignaauglýsingum hefur hækkað, en í júní seldust um 14% íbúða á höfuðborgarsvæðinu yfir ásettu verði, sem er þremur prósentustigum meira en í mánuðinum áður og fjórum prósentustigum meira en mánaðarlegt...

Hlutfall íbúða sem seljast yfir ásettu verði í fasteignaauglýsingum hefur hækkað, en í júní seldust um 14% íbúða á höfuðborgarsvæðinu yfir ásettu verði, sem er þremur prósentustigum meira en í mánuðinum áður og fjórum prósentustigum meira en mánaðarlegt meðaltal nemur síðan 2012. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs sem birt var í gær.

Miðgildi kaupverðs 45 milljónir

Í júní síðastliðnum var miðgildi verðs í útgefnum kaupsamningum íbúða á höfuðborgarsvæðinu sem seldar voru á almennum markaði, 44,5 milljónir króna. Það er 1,4% meira en í sama mánuði í fyrra. Miðgildi verðs í fasteignaauglýsingum var hins vegar ögn hærra, eða 47,9 milljónir króna í júní.

Í skýrslu Íbúðalánasjóðs kemur fram að vísitala markaðsverðs íbúða utan höfuðborgarsvæðisins hafi hækkað talsvert meira en innan þess. Nemur hækkunin um 14,2% undanfarna 12 mánuði. Munurinn á íbúðaverði á höfuðborgarsvæðinu og utan þess hefur því minnkað undanfarna 12 mánuði.

Dæmi sem tekið er í skýrslunni sýnir að meðalfermetraverð í fjölbýli á Akranesi hefur farið úr því að vera um 59% af fermetraverði í Reykjavík á öðrum ársfjórðungi 2017, í að vera um 69% af því á sama tímabili í ár.

Sérbýli hækka meira en fjölbýli

Í maí síðastliðnum hækkaði sérbýli í verði um 2,8% og nam hækkunin í júní 1,7%. Í skýrslunni segir að þetta séu talsvert miklar hækkanir milli mánaða í sögulegu samhengi, en meðaltal mánaðarhækkana sérbýlis síðan 1994 er um 0,6%. Frá því í maí 2017 hefur sérbýli hækkað um samtals 7% meira en fjölbýli.

steingrimur@mbl.is