Æfingamaraþon Hljóðfæraleikarar kammersveitarinnar Elju hafa æft stíft undanfarið. Öllu verður tjaldað til á tónleikunum; Brot úr minni og Tvístrun.
Æfingamaraþon Hljóðfæraleikarar kammersveitarinnar Elju hafa æft stíft undanfarið. Öllu verður tjaldað til á tónleikunum; Brot úr minni og Tvístrun. — Morgunblaðið/Valli
„Annars er fjölbreytileiki, framúrstefna og tilraunir mest lýsandi fyrir Tvístrun- tónleikana; allt í bland og mikil breidd, allt frá raftónlist til hefðbundinnar hljóðfæratónlistar og margt þar á milli.“

Valgerður Þ. Jónsdóttir

vjon@mbl.is

„Við vildum gera Ung Nordisk Musik, UNM, sýnilegri á Íslandi en verið hefur og um leið tónlistarhátíðina, sem samtökin standa fyrir á hverju ári og haldin verður að þessu sinni í Bergen í Noregi í lok ágúst. Þar verða að venju flutt verk 35 tónskálda, þrítugra og yngri, frá öllum Norðurlöndunum. Í hópnum eru sjö tónskáld frá Íslandi, sem valin voru til þátttöku úr um fimmtíu umsóknum. Þegar við höfðum spurnir af að kammersveitin Elja hygðist halda tónleika í sumar datt okkur í hug að fá liðsmenn hennar til að flytja verk þeirra á tónleikum,“ segir Pétur Eggertsson, tónskáld og einn skipuleggjenda tónleikanna hér heima. Hann, ásamt Ragnari Árna Ólafssyni, gítarleikara, og Sóleyju Sigurjónsdóttur, tónskáldi, situr í stjórn Íslandsdeildar UNM, sem hefur verið starfrækt frá árinu 1974 í því skyni að koma ungum og efnilegum, íslenskum tónskáldum á framfæri.

„Markmið samtakanna er að hjálpa ungu tónlistarfólki að byggja upp atvinnusambönd, kynnast kollegum sínum á Norðurlöndunum og sjá og heyra verk hvert annars flutt á tónlistarhátíð UNM,“ segir Pétur, sem sjálfur var einn sjö útvalinna í fyrra og fékk tónverk sitt flutt á hátíðinni sem þá var í Reykjavík eins og alltaf á fimm ára fresti.

Nánd við áhorfendur

Kammersveitin Elja er skipuð ungum hljóðfæraleikurum, sem flestir hafa þegar skapað sér sess sem einleikarar, hljómsveitarspilarar, hljómsveitarstjórar eða listrænir stjórnendur. Leiðarstef Elju er að bjóða upp á kraftmikinn og lifandi tónlistarflutning með nánd við áhorfendur og að túlka allar tónlistarstefnur og -form.

Í þeim anda eru tvennir tónleikar Elju um helgina í Tjarnarbíói. Þeir fyrri, Brot úr minni , kl. 20 í kvöld, hampa tónskáldunum Halldóri Eldjárn og Jófríði Ákadóttur. „Nýtt verk, sem Halldór samdi og tileinkaði Elju verður frumflutt, en Jófríður flytur, ásamt sveitinni, nokkur laga sinna í nýjum búningi. Hvorugt hefur skrifað mikið fyrir hljóðfærahópa þannig að ég er spenntur að heyra hvernig þau nýta tækifærið. Tónleikarnir eru skemmtileg blanda því Elja flytur einnig verk eftir gömlu meistarana, Joseph Haydn og Arnold Schönberg,“ segir Pétur.

Tónleikarnir Tvístrun , kl. 19.30 annað kvöld, eru samstarfsverkefni UNM og kammersveitarinnar Elju og hverfast um tónskáldin sjö, sem senn halda til Bergen til að fylgja tónverkum sínum eftir. Að sögn Péturs verða flutt verk tveggja annarra, sem einnig voru valin í umsóknarferlinu.

Tvístrun er í rauninni tvíþættur viðburður, annars vegar tónleikarnir og hins vegar opnar pallborðsumræður á undan um stöðu hátíðarinnar og hvernig styrkja megi starf UNM, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir bæði unga flytjendur og tónskáld. Samstarf Elju og samtakanna er frábært tækifæri fyrir tónskáldin til að fá framúrskarandi hljóðfæraleikara til að flytja verk sín og fyrir þá að takast á við ný verk jafnaldra sinna og samlanda. Síðar er meiningin að ræða meira um vinnuferli og að gefa fjölbreyttum hópi listamanna kost á að vinna innan ramma UNM sem og með hljóðfæraleikurum í Elju,“ segir Pétur og upplýsir að jafnframt verði tilkynnt hvaða ungu tónskáld voru valin til að taka þátt í tónlistarhátíð UNM á næsta ári í Piteå í Svíþjóð.

Tónskáldin fengu að ráða

„Verkin sem flutt verða á tónleikunum, flest undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar, eru ekki þau sömu og flutt verða í Bergen, nema í einu tilviki. Slíkt hefði enda ekki verið hægt, til dæmis er eitt samið fyrir sinfóníuhljómsveit, sem við hefðum engan veginn getað mannað. Tónskáldin fengu að ráða hvaða verk þeirra yrðu flutt og er Gísli Magnússon sá eini sem frumflytur glænýtt verk, en önnur hafa áður verið flutt í ýmsum myndum á tónleikum hér og þar. Annars er fjölbreytileiki, framúrstefna og tilraunir mest lýsandi fyrir Tvístrun- tónleikana; allt í bland og mikil breidd, allt frá raftónlist til hefðbundinnar hljóðfæratónlistar og margt þar á milli,“ segir Pétur og lætur þess getið að framan af hafi fleiri með klassísk tónverk sótt um heldur en með annars konar og óhefðbundnari tónlist.

„Þetta er að breytast og samtökin leggja engar línur. Nú langar okkur til að vekja athygli á að það er miklu meira að gerast í tónlistinni á Íslandi. Bæði í raftónlist, gjörningum og innsetningum, enda æ meiri skörun að verða á milli listgreina.“

Frelsi í listaheimi

Máli sínu til stuðnings bendir Pétur á að umsóknir sem berist samtökunum séu í meira mæli en áður frá myndlistarfólki. „Viðmiðið hvað telst gjaldgengt sem tónverk er sífellt að verða frjálslegra í listaheiminum. UNM hvetur til fjölbreytni, en síðan er undir dómurunum komið að skera úr um ef upp koma álitamál.“

Spurður hvað gæti hugsanlega orkað tvímælis, nefnir hann hljóðfærasmíð og -hönnun, jafnvel leikhús. „Það má ræða það lengi,“ svarar hann svo þegar hann er spurður hvernig það sem ekki heyrist geti verið tónlist. Og tekur dæmi: „Tónskáld býr til hljóðfæri, sem ætlað er fyrir spunatónlist, og þá má velta fyrir sér hvar tónverkið sé. Er það tónlistin, sem flutt er af þeim sem spinna á staðnum?“.

Sjálfur kveðst Pétur sem tónskáld vera að mörgu leyti á þessum nótum, því undanfarið hafi hann verið að rannsaka hvort eitthvað annað en hljóð geti verið hluti af tónverki. Efniviður hans er myndefni, rafhljóð, hreyfing, gjörningar svo fátt eitt sé talið. Hann spilar þó enn á fiðluna sína og notar hana m.a. í vídeótónverkin sín.

Eftir skilgreiningar Péturs á tónverki er yfirskrift tónleikanna skiljanlegri en ella. Tvístrun er nefnilega annað orð yfir dreifingu.

Miðar á tónleikana fást á tix.is. Hægt er að kaupa passa sem gildir á báða tónleikana.