Sigurður Gunnar Þorsteinsson
Sigurður Gunnar Þorsteinsson
Ísfirðingurinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson hefur ekki fundið sér nýtt lið fyrir tímabilið sem framundan er í körfuboltanum.

Ísfirðingurinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson hefur ekki fundið sér nýtt lið fyrir tímabilið sem framundan er í körfuboltanum. Eftirspurnin hefur þó verið til staðar og nokkur félög hafa sýnt Sigurði áhuga í sumar eftir að ljóst varð að hann yrði ekki áfram í Grindavík.

Sá möguleiki er enn til staðar að Sigurður fari utan á ný en hann lék um tíma í Grikklandi en einnig í Svíþjóð. Morgunblaðið forvitnaðist um stöðu mála hjá Sigurði í gær og hann sagði sín mál ekki vera komin á hreint. Hann væri með til skoðunar lið erlendis sem hefði sýnt honum áhuga en vildi ekki segja hvaða lið væri um að ræða eða hvaðan. Sá kostur væri áhugaverður ef til þess kæmi en Sigurður er með grískan umboðsmann sem vinnur í hans málum erlendis. Sigurður er þrítugur miðherji og hefur leikið hérlendis með KFÍ, Keflavík og Grindavík. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins höfðu Haukar og ÍR áhuga á að fá hann í sínar raðir fyrir átökin í Dominos-deildinni næsta vetur. kris@mbl.is