Ragnhildur Þrastardóttir
ragnhildur@mbl.is
33% fleiri innritast nú á verk- eða starfsnámsbrautir í framhaldsskólum en í fyrra. Mest aukning var í ásókn í nám í rafiðngreinum og málmiðngreinum.
653 þeirra nemenda sem sóttu um skólavist í framhaldsskólum eru innritaðir á verk- eða starfsnámsbrautir eða um 16%. Stærstur hluti þeirra sem sóttu um skólavist innritaðist á bóknáms- eða listnámsbrautir, eða 69% nemenda. 15% nemenda innrituðust á almenna námsbraut eða framhaldsskólabraut en það er lægra hlutfall en síðustu ár.
Menntaskólanum við Hamrahlíð bárust flestar umsóknir þetta árið eða 749. Verzlunarskóli Íslands fékk næstflestar umsóknir eða 642 og þar á eftir kom Menntaskólinn við Sund en honum bárust hátt í 600 umsóknir. Ögn færri umsóknir bárust Menntaskólanum í Reykjavík en vant er eða 360.
Háskóli Íslands var viðbúinn því að fjölgun yrði í umsóknum fyrir þetta skólaár vegna styttingar námstíma til stúdentsprófs. Fleiri þreyttu A-prófið, aðgangspróf fyrir háskólastig, en í fyrra. 480 þreyttu prófið þetta árið en 425 manns þreyttu það í fyrra. Munurinn er rúm ellefu prósent. 6