UNM Pétur Eggertsson, tónskáld og einn þriggja stjórnarmanna í Íslandsdeild UNM.
UNM Pétur Eggertsson, tónskáld og einn þriggja stjórnarmanna í Íslandsdeild UNM. — Morgunblaðið/Valli
Tónverk sjö ungra tónskálda voru valin til flutnings á tónleikum UNM í Bergen. Kammersveitin Elja mun einnig flytja verk eftir þau á tónleikunum Tvístrun annað kvöld, en þó yfirleitt ekki þau sömu.

Tónverk sjö ungra tónskálda voru valin til flutnings á tónleikum UNM í Bergen. Kammersveitin Elja mun einnig flytja verk eftir þau á tónleikunum Tvístrun annað kvöld, en þó yfirleitt ekki þau sömu. Einnig tekur sveitin til flutnings verk tveggja tónskálda, sem hér eru síðast upptalin, en voru einnig valin í umsóknarferlinu.

Bára Gísladóttir rannsakar hljóðblæ ýmissa hljóðfæra og skapar oft dimman og dökkan hljóðheim. Hún spilar á kontrabassa í eigin verki á Tvístrun -tónleikunum.

Fjóla Evans býr í Kanada og hefur látið til sín taka þar. Hún er svolítið í að rannsaka hljóðblæ, en annars byggjast verk hennar meira á íslenskri náttúru og náttúrufyrirbærum, sem hún málar með tónum.

Gísli Magnússon er á svipaðri leið varðandi vinnu með náttúruna og hvernig hún þýðist yfir í músikina, en niðurstaða hans er allt önnur en Fjólu.

Gylfi Guðjohnsen er í hefðbundnari kantinum og með verk fyrir gítarkvintett á Tvístrun -tónleikunum. Hann er svolítið að rannsaka eðli hljóðsins og hvernig hægt er að láta hljóðfæri tvinna saman hljóð og búa þannig til nýtt.

Inga Magnes Weisshappel er tónskáld og myndlistarkona, sem vinnur mikið með vídeó, dans og hreyfingu í tónverkum sínum. Tónverkið annað kvöld er ný útgáfa af lokaverkefni hennar í LHÍ, en í Bergen verður hún með sinfóníuverk.

Ingibjörg Friðriksdóttir er fyrst og fremst í raftónlist og hefur gert mjög mikið af hljóðinnsetningum. Tónverk hennar í Bergen er fyrir flygil, sem geymir m.a. ping pong kúlur og skopparabolta, en hér heima verður flutt einhvers konar rafútgáfa af sama verki.

Örnólfur Eldon er búsettur í Þýskalandi og semur tónlist sem byggist mikið á rými. Á laugardaginn verður flutt einleiksverk fyrir fiðlu þar sem rýmið spilar stórt hlutverk.

Katrín Helga Ólafsdóttir er með verk þar sem hún skiptir út hefðbundnum nótum fyrir liti. Hún er að rannsaka hvað getur verið nótnaritun og vinnur m.a. með grafík.

Gulli Björnsson býr í Arizona í Bandaríkjunum. Hann spilar bæði á klassískan- og rafmagnsgítar og hefur verið að gera tilraunir með að blanda saman og búa til nýja hljóðheima úr þessum ólíku hljóðfærum.