Á laugardaginn birti Jósefína Meulengracht Dietrich sjöunda kapítulann í matreiðslubók sinni. Hann fjallar um sjálfan fæðuhringinn: Steikurnar yfir og allt um kring, indæla rétti og fína, set ég nú matreiddar saman í hring með sósum á diskana mína.

Á laugardaginn birti Jósefína Meulengracht Dietrich sjöunda kapítulann í matreiðslubók sinni. Hann fjallar um sjálfan fæðuhringinn:

Steikurnar yfir og allt um kring,

indæla rétti og fína,

set ég nú matreiddar saman í hring

með sósum á diskana mína.

Jósefína Meulengracht segir frá því að nú hafi hún ort fimmskeytlu um öryggis- og varnamál:

Bjart er yfir heiminum og býsna mikil sól.

Bóseindina passa ég og gæti hennar vel,

með afsagaða haglabyss‘í einum ruggustól

út‘í garði svo að enginn taki hana og stel-

i.

Fyrir nokkrum dögum birtust myndir af holóttum vegi fyrir Vatnsnes sem gerði Hallmund Kristinsson að sjáanda á Boðnarmiði:

Enn ég nú og aftur segi,

á það skyldi miða:

Holurnar á Vatnsnesvegi

verða menn að friða!

Gamlar líkt og góður afi,

gæddar tvíræðri mildi,

er því trúlegt að þær hafi

ómælt varðveislugildi.

Og ekki stóð á viðbrögðunum. Jón Atli Játvarðarson:

Holur varða Vatnsnesið,

ég virði það og kenni.

Af einni tekur önnur við

og einhver svo af henni.

Hreinn Guðvarðarson bætti við:

Á Vatnsnesinu í vægri golu

og vætutíð fer allt í svað

Þar fær maður högg í holu,

helv.er að vita það.

Hafdís Hafliðadóttir lagði þetta til málanna: „Þessar holur eru orðnar svo gamlar, að það verður að varðveita þær.“

Kristjana Sigríður Vagnsdóttir talaði um „launholuna“:

Friðið holur, fræknu menn,

fáir yfir gráta,

í lágnættinu líkar enn

launholu að máta.

Helgi Ingólfsson breikkaði yrkisefnið:

Gæta þurfum hafsins hliða.

Held ég þá að líka yrði

ætíð sjálfsagt einnig að friða

öldurnar á Breiðafirði.

Og hélt áfram:

Fjölmargt verk í friðun bíður.

Finnst mér eitt hér af sama meiði:

Friða öllu síst þarf síður

sandkornin á Arnarvatnsheiði.

Halldór Blöndal

halldorblondal@mbl. is