Veiðistaður Veiðimenn raða sér nú í kringum veiðihúsið Lund sem Jóhannes Jósepsson á Hótel Borg byggði.
Veiðistaður Veiðimenn raða sér nú í kringum veiðihúsið Lund sem Jóhannes Jósepsson á Hótel Borg byggði. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Góð veiði er í Hítárá á Mýrum, betri en á síðasta ári, þrátt fyrir breytingar á ánni í kjölfar berghlaupsins sem varð í Hítardal fyrir um mánuði. Nú stefnir í að fleiri laxar veiðist í Hítárá en á síðasta ári.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Góð veiði er í Hítárá á Mýrum, betri en á síðasta ári, þrátt fyrir breytingar á ánni í kjölfar berghlaupsins sem varð í Hítardal fyrir um mánuði. Nú stefnir í að fleiri laxar veiðist í Hítárá en á síðasta ári.

Hítará var gruggug fyrstu dagana eftir að skriðan féll úr Fagraskógarfjalli og yfir ána og meðan hún var að finna sér nýjan farveg. Fljótlega varð hún þó tær sem fyrr.

Veiðarnar héldu áfram en stangveiðimennirnir hafa einbeitt sér að neðri hluta árinnar, við Brúarfoss sem er við þjóðveginn og upp að ármótum Hítarár og Tálma en megnið af rennslinu sem áður fór um efri hluta Hítárár fer nú um Tálma. Efri svæðin, svokölluð haustveiðisvæði, eru alveg lokuð.

Ari Hermóður Jafetsson, framkvæmdastjóri Stangaveiðifélags Reykjavíkur, segir að laxinn hangi mikið í kringum ármótin. Getur hann sér þess til að hann sé ringlaður og viti ekki í hvora ána hann eigi að fara.

Hindrun í nýjum farvegi

Telur Ari að það taki nokkur ár að komast að því hvort og þá hvernig laxinn gangi upp í ána. Í nýja farveginum við skriðuna eru til dæmis hindranir, þar sem áin rennur undir hraun.

Sex stangir eru í Hítará. Þar höfðu í gær veiðst 426 laxar, samkvæmt upplýsingum Landssambands veiðifélaga. Allt árið í fyrra veiddust 494 laxar í ánni. Ari Hermóður telur allar líkur á að Hítárá verði betri í ár en í fyrra, þrátt fyrir náttúruhamfarirnar.