Ætlunin er að rannsaka mikilvægi hrota og öndunarerfiðis með hliðsjón af áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum og öðrum neikvæðum áhrifum á heilsuna, að því er fram kemur í Tímariti Háskóla Íslands um rannsóknina.
Erna Sif Arnardóttir er nýdoktor við Læknadeild, en hún hefur unnið við svefnrannsóknir, bæði mælingar á sjúklingum og við vísindarannsóknir í meira en áratug.
Hún telur að staðla megi og bæta alþjóðlega aðferðafræði sem notuð er til að mæla alvarleika svefnháðra öndunartruflana. Vonast Erna Sif til að rannsóknin geti leitt til að þeir sem hrjóta, en eru ekki með hefðbundinn kæfisvefn, geti fengið meðferð á grundvelli klíniskra afleiðinga þess að hrjóta.
Það gæti dregið úr neikvæðum afleiðingum hrotanna á lífsgæði og heilsu fólks, verði það niðurstaða rannsóknarinnar, en líkur eru á ýmsum hættulegum kvillum eins og æðakölkun og hjartasjúkdómum, eða skertum lífsgæðum á borð við hvíldarleysi og sífellda þreytu.