Það er merkilegt hve mjög manneskjan þráir linnulaust breytt ástand. Víkverji snýr brátt úr vinnu í skóla og hlakkar mikið til. Hann er þó alls ekki ósáttur við líf sitt sem vinnandi einstaklingur.

Það er merkilegt hve mjög manneskjan þráir linnulaust breytt ástand. Víkverji snýr brátt úr vinnu í skóla og hlakkar mikið til. Hann er þó alls ekki ósáttur við líf sitt sem vinnandi einstaklingur. Málið er einfaldlega að hann á afar erfitt með að njóta augnabliksins.

Þegar Víkverji leiðir hugann að því þá man hann óljóst eftir síðastliðnum apríl. Þá sat Víkverji sveittur á Þjóðarbókhlöðunni, reyndi að leggja á minnið hvert einasta orð sem Dante Aligheri hafði ritað, hafði sig allan við til að átta sig á tengslum skáldsögu Andra Snæs, Love Star , við nútímann og horfði löngunaraugum út um gluggann þar sem sólin skein. Þá gat Víkverji ekki beðið eftir því að leggja bækurnar á hilluna og mæta til vinnu.

Þessar endurminningar skipta Víkverja þó ekki miklu máli og hann hlakkar enn til að snúa aftur í skólann. Víkverji er mannlegur og þráir því sífellt breytt ástand. Ef honum er heitt vill hann að sér sé kalt, ef hann er í gleðskap vildi hann óska þess að hann væri einn á göngu um hálendið, ef hann er á stefnumóti þráir hann ekkert heitar en að ræða við móður sína.

Hvaðan kemur þessi árátta eiginlega? Það er stundum eins og nútímafólki sé skipað að vera sífellt á hreyfingu, alltaf að leita lengra eða leita í eitthvað annað. Við stöldrum ekki við en erum á sífelldum þeytingi.

Mannkynið er þó ekki alveg glatað enn. Til er fólk sem nær með undraverðum hætti að lifa í hinu svokallaða núi. Fólk sem hugleiðir, stundar jóga og einbeitir sér að hverjum einasta andardrætti. Þetta fólk nýtur augnabliksins og segir að fortíð og framtíð séu ekki til, einungis núið.

Víkverji veltir því fyrir sér hvort þetta fólk sé af öðrum heimi eða hvort hann geti hugsanlega, með nægilegri þjálfun, orðið einn af þeim.