Leifur Guðjónsson
Leifur Guðjónsson
Nína Guðrún Geirsdóttir ninag@mbl.is Vélarbilun varð í hægri hreyfli flugvélar Air Iceland Connect í gær. Flugvélin var nýfarin í loftið frá Reykjavíkurflugvelli þegar bilunin uppgötvaðist og sneri vélin þá við og lenti í Reykjavík.

Nína Guðrún Geirsdóttir

ninag@mbl.is

Vélarbilun varð í hægri hreyfli flugvélar Air Iceland Connect í gær. Flugvélin var nýfarin í loftið frá Reykjavíkurflugvelli þegar bilunin uppgötvaðist og sneri vélin þá við og lenti í Reykjavík. Engan sakaði um borð en mikinn reyk lagði frá flugvélinni að sögn sjónarvotta. 44 farþegar voru um borð í vélinni sem var á leið til Egilsstaða. Var þeim boðin áfallahjálp á vellinum eftir lendingu í Reykjavík.

Leifur Guðjónsson, sjómaður frá Grindavík, var um borð í vélinni og var skiljanlega brugðið. „Ég sit hægra megin í vélinni, lít út um gluggann og sé að hreyfillinn er orðinn stopp. Svo kallar flugstjórinn í kallkerfið að við þurfum að snúa við vegna þess að annar hreyfillinn hafði stöðvast.“ Að sögn Leifs greip í kjölfarið um sig nokkur geðshræring um borð í vélinni. „Maður var bara smeykur enda mikil óvissa í gangi. Svo var lendingin í Reykjavík mjög harkaleg. Ég var bara mjög hræddur.“ Stuttu síðar var fengin önnur vél til að flytja farþegana austur. „Það gekk mjög vel. Maður trúði varla að maður yrði það óheppinn að lenda í tveimur bilunum í röð svo maður var nokkuð rólegur. En ég fann það þegar vélin lenti á Egilsstöðum, hvað lendingin var harkaleg í Reykjavík,“ segir Leifur.

Mikill viðbúnaður var á Reykjavíkurflugvelli í kjölfar atviksins og þótti Leifi viðbrögðin til fyrirmyndar. „Þau stóðu sig vel starfsfólkið og eiga hrós skilið, gerðu allt rétt í þessum aðstæðum.“

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, segir það eðlileg vinnubrögð að slökkt sé á hreyfli við þessar aðstæður. Vélarnar séu vel í stakk búnar til að fljúga með einum hreyfli.

Áætlað er að málið verði rannsakað af rannsóknarnefnd samgönguslysa von bráðar.