Ferðamenn Bandaríkjamönnum fjölgaði um 27% í júlí frá sama mánuði í fyrra.
Ferðamenn Bandaríkjamönnum fjölgaði um 27% í júlí frá sama mánuði í fyrra. — Morgunblaðið/Eggert
Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Vísbendingar eru um samdrátt í júlí hjá ferðaþjónustufyrirtækjum á landsbyggðinni að sögn Skarphéðins Berg Steinarssonar ferðamálastjóra.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Vísbendingar eru um samdrátt í júlí hjá ferðaþjónustufyrirtækjum á landsbyggðinni að sögn Skarphéðins Berg Steinarssonar ferðamálastjóra. Hann segir að því lengra frá suðvesturhorninu sem farið sé því sterkari merki séu um samdrátt.

Í tölum Ferðamálastofu og Isavia um brottfarir farþega frá Keflavíkurflugvelli í júlí kom fram að Bandaríkjamönnum hefði fjölgað um 27% milli ára. Eru farþegar frá Norður-Ameríku nú um 34% allra þeirra sem fljúga brott um Keflavíkurflugvöll. Heildarfjölgun í júlí var 2,5%, en fjölgun bandarískra ferðamanna ber hana nærri ein uppi.

Mögulegt er að hátt hlutfall Bandaríkjamanna af erlendum ferðamönnum hér á landi sé hluti skýringarinnar, en tölur um gistinætur eftir landshlutum munu að líkindum varpa skýrara ljósi á þróunina.

Þjóðverjum fækkar um 20%

Skarphéðinn segir að það sé í sjálfu sér jákvætt að spár Isavia um samdrátt í júní og júlí hafi ekki gengið eftir og að 2,5% heildarfjölgun sé í sjálfu sér eðlileg. „Þetta er hóflegur vöxtur og eðlilegri en það sem við höfum séð, vöxt um tugi prósenta milli ára,“ segir hann, en nefnir að rétt sé að staldra við áðurnefndar upplýsingar um þjóðerni farþega. Skaphéðinn segir að milli ára hafi Þjóðverjum fækkað um 20% í júlí og það sama eigi við um margar aðrar þjóðir í Norður- og Mið-Evrópu.

„Það er samdráttur á öllum okkar helstu markaðssvæðum og vísbendingar um að þessi fjöldi ferðamanna sé ekki að skila sér út á land. Við heyrum það frá ferðaþjónustufyrirtækjum víða um land að það sé samdráttur núna í júlí. Það er spurning hvort þessi samsetning sé að valda því og að Bandaríkjamenn skili sér síður út á land heldur en fólk af öðrum þjóðernum, sérstaklega evrópskir ferðamenn,“ segir hann.

„Það hefur verið keppikefli að reyna að fá ferðamenn til að fara á þá staði þar sem fyrir er lítið af ferðamönnum. Það eru vísbendingar um að það hafi ekki tekist nægilega vel í sumar,“ segir hann.