„Það er alveg á hreinu, þetta er S-merkt lyf og sjúklingar eiga ekki að þurfa að greiða neitt fyrir það,“ segir Guðrún I.

„Það er alveg á hreinu, þetta er S-merkt lyf og sjúklingar eiga ekki að þurfa að greiða neitt fyrir það,“ segir Guðrún I. Gylfadóttir, formaður lyfjagreiðslunefndar, en hún hafði samband við Morgunblaðið í framhaldi af umfjöllun um lyfið Emtricitabine/Tenofovir disoproxil Krka , lyf sem er notað til að fyrirbyggja smit og halda niðri HIV-veirunni.

Morgunblaðið hafði í umfjöllun sinni eftir starfsmanni lyfjaverslunar á höfuðborgarsvæðinu að fólk þyrfti að greiða fyrir lyfið að hluta, eða þar til að afsláttarþrepum lyfjaskírteinis væri náð innan árs, en lyfið er dýrt og kostar mánaðarskammturinn 62 þúsund krónur með virðisaukaskatti í heildsölu.

Guðrún segir það vera misskilning, Sjúkratryggingar Íslands eigi að borga lyfið að fullu, fólk eigi að geta fengið lyfið afgreitt í lyfjaverslunum gegn lyfjaávísun frá þar til bærum sérfræðingi, án þess að þurfa að reiða fram fé. ernayr@mbl.is