Erna Ýr Öldudóttir
ernayr@mbl.is
„Sumir draga mjög lengi að láta jarðsetja duftker látinna ástvina, en þetta hefur þó stórlagast,“ sagði Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, en Morgunblaðið hafði samband við hann til að kanna stöðuna. Fyrir fjórum árum var blaðið með ítarlega umfjöllun um málið, en brögð eru að því að það dragist úr hófi fram að láta jarðsetja kerin og safnast þau þá upp í geymslum kirkjugarðanna. Dæmi hafa verið um að duftker hafi beðið jarðsetningar um árabil.
Misskilningur um jarðsetningu
„Algengur misskilningur er að gengið sé frá jarðsetningu sjálfkrafa eftir útförina og fólk hugar síðan ekkert meira að því. Við höfum verið að reka svolítið markvisst á eftir þessu og þetta fer að komast í viðunandi horf en við erum ekki alveg ánægð ennþá,“ segir Þórsteinn og bætir við að útfararstofurnar þurfi einnig að leggja sitt af mörkum við að hjálpa aðstandendum látinna við að klára útför hins látna, sem alla jafna skuli enda með jarðsetningu.„Það er á ábyrgð aðstandendanna sem sáu um útförina að óska eftir því að duftkerin séu jarðsett eftir bálför, en grafreit fyrir duftker hins látna hefur þegar verið úthlutað við útförina,“ segir Þórsteinn. Eðlilegt sé að greftrun fari fram fljótlega eftir útför hins látna, nema ástæður eins og t.d. frost í jörðu komi í veg fyrir að það geti gerst, en slík tilfelli séu undantekningar.