Samherjatogarar Björg EA 1, lengst til vinstri, Björgúlfur EA 312 og Kaldbakur EA. Sá síðastnefndi er gerður út á vegum ÚA en hinir í nafni Samherja. Myndin var tekin þegar skipunum var siglt inn á Pollinn á Akureyri til sýnis fyrir bæjarbúa.
Samherjatogarar Björg EA 1, lengst til vinstri, Björgúlfur EA 312 og Kaldbakur EA. Sá síðastnefndi er gerður út á vegum ÚA en hinir í nafni Samherja. Myndin var tekin þegar skipunum var siglt inn á Pollinn á Akureyri til sýnis fyrir bæjarbúa. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Loðnuveiðar hefðu mátt vera betri á nýliðnu fiskveiðiári, segir forstjóri Samherja. Erfið veður settu strik í reikninginn í vetur og verslanakeðjur herða sífellt kröfur um afhendingaröryggi.

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir veiðar og vinnslu hafa gengið vel á fiskveiðiárinu sem nú er nýlokið.

„Bolfiskveiðarnar hafa gengið nokkuð vel en á sama tíma hafði maður vonast til að það yrðu meiri loðnuveiðar í vetur. Við hefðum gjarnan viljað veiða meiri loðnu og þar urðum við fyrir svolitlum vonbrigðum.

Svo hefur uppsjávarveiðin verið erfið, bæði á kolmunna og á makríl, og þar hefur veðrið spilað stórt hlutverk,“ segir Þorsteinn. „Veðrið var erfitt í vetur, sem hafði áhrif á veiðarnar og þá sérstaklega uppsjávarveiðarnar.“

Nýju skipin reynst ágætlega

Árið í heild sinni metur hann hvorki jákvætt né neikvætt en segir sveiflur hafa verið í báðar áttir. „Verð var nokkuð stöðugt en bolfiskverð hækkaði ekki og þær lækkanir sem voru árið áður í karfa og ufsa gengu því miður ekki til baka.“

Nýjasti ísfisktogarinn í eigu Samherja, Björg EA 7, lagði að bryggju á Akureyri í október síð astliðnum, en fyrr á því ári fengu Samherji og dótturfélagið ÚA togarana Björgúlf og Kaldbak afhenta. Öll voru skipin smíðuð í Cemre-skipasmíðastöðinni í Tyrklandi og segir Þorsteinn þau hafa reynst ágætlega og í samræmi við væntingar, til að mynda hvað varðar sjóhæfni og eldsneytisnotkun.

„Við vorum því með meiri veiðigetu á þessu fiskveiðiári en á því síðasta. Það hefur skilað sér.“

Miklar fjárfestingar í Rússlandi

Spurður hvaða áskoranir blasi við Samherja um þessar mundir nefnir Þorsteinn fyrst og fremst breytingar á skipastólnum í uppsjávarveiðum. „Hér á Íslandi eru það svo kjarasamningarnir sem fela í sér stóra áskorun fyrir félagið. En ekki síst eru þeir sem eru í kringum okkur að verða sífellt betri í veiðum og vinnslu á bolfiski. Það forskot sem við höfum haft fer ört minnkandi,“ segir Þorsteinn.

Nefnir hann í því sambandi nágrannalönd á borð við Noreg en helst Rússland. „Þar hefur verið fjárfest mjög mikið og útlit er fyrir að svo verði áfram. Hið sama á við um mörg lönd í kringum okkur. Á sama tíma hefur fiskvinnsla á Íslandi ekki verið að aukast, það er nú bara staðreynd.“

Vilja semja til lengri tíma

Þorsteinn bendir einnig á að erlendis fari viðskiptavinunum fækkandi. „Við sjáum áframhaldandi hagræðingu í verslun í markaðslöndunum okkar. Verslanakeðjur sem við höfum skipt við eru að sameinast og verða stærri og stærri, sem þýðir að innkaupaafl þeirra er að aukast. Því fylgja sífellt harðari kröfur um afhendingaröryggi auk þess sem þær vilja í auknum mæli semja um verð langt fram í tímann,“ segir hann.

„Þetta er hluti af þeim veruleika sem við lifum í núna, verslanakeðjurnar eru að gera kröfur um lengri og lengri samninga.“