Brexit Vel fór á með þeim Raab og Barnier eftir fundinn í gær.
Brexit Vel fór á með þeim Raab og Barnier eftir fundinn í gær. — AFP
Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins í viðræðunum um útgöngu Breta úr sambandinu, varaði við því í gær að þrætan um landamæri Írlands og Norður- Írlands gæti enn orðið til þess að koma í veg fyrir að samkomulag næðist.

Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins í viðræðunum um útgöngu Breta úr sambandinu, varaði við því í gær að þrætan um landamæri Írlands og Norður- Írlands gæti enn orðið til þess að koma í veg fyrir að samkomulag næðist.

Sagði Barnier brýna þörf á því að finna lausn svo að landamærin myndu ekki lokast eftir að Bretar ganga úr sambandinu í maí á næsta ári, en hann lét ummæli sín falla eftir að hafa fundað í Brussel með Dominic Raab, ráðherra Brexit-mála. Fagnaði Barnier þar þeim árangri sem hefði náðst í öryggis- og varnarmálum á síðustu vikum en sagði jafnframt að enn væru erfið viðfangsefni sem ætti eftir að ná sáttum um.

Tillaga Evrópusambandsins felur í sér að Norður-Írland verði „til þrautavara“ áfram hluti af Evrópusambandinu, náist ekki samkomulag um annað, en markmið þess er að halda landamærunum opnum. Opin landamæri á milli Írlands og Norður-Írlands voru á sínum tíma mikilvægur þáttur í friðarferlinu í deilunum á milli lýðveldissinna og sambandssinna á Norður-Írlandi.

Bretar hafa hins vegar lagt til að þrautavarinn verði frekar sá að allt landið verði „talið til“ Evrópusambandsins á vissum sviðum fram til ársloka 2021, þar sem óttast er að tillaga Evrópusambandsins myndi einungis slíta N-Írland frá hinum löndunum í Stóra-Bretlandi. Sagði Raab eftir fund sinn við Barnier að hann væri enn „þrjóskur og bjartsýnn“ á að samkomulag næðist í tæka tíð fyrir útgönguna á næsta ári.