[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Pólska skipasmíðastöðin Crist hefur tilkynnt Vegagerðinni að hún muni ekki afhenda nýja Vestmannaeyjaferju fyrr en í nóvember og hefur nefnt 15. nóvember í því sambandi.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Pólska skipasmíðastöðin Crist hefur tilkynnt Vegagerðinni að hún muni ekki afhenda nýja Vestmannaeyjaferju fyrr en í nóvember og hefur nefnt 15. nóvember í því sambandi. Vegagerðin vonast til þess að sú tímasetning standi. Fólk sem þekkir til framvindu verksins telur hins vegar vel sloppið ef skipið fæst afhent á árinu en það gæti hugsanlega dregist lengur. Upphaflega var stefnt að afhendingu í lok júlí en drátturinn er bæði vegna breytinga sem verkkaupi hefur óskað eftir og tafa hjá skipasmíðastöðinni. Skipið verður ekki tekið í notkun fyrr en einhvern tímann í desember, í fyrsta lagi, og slæmt veður á þeim tíma getur valdið erfiðleikum við siglingar í Landeyjahöfn.

Búið að kaupa landtengingar

Vegagerðin hafði áhuga á að fá skipið afhent snemma að vori til þess að skipstjórnarmenn og aðrir úr áhöfn gætu lært á það við góðar veðuraðstæður að sumri til. Útboðið dróst þar sem fjármögnun var ekki klár. Þegar samið var um smíðina átti að afhenda skipið úti í Póllandi í lok júlímánaðar.

Ákveðið var að ráðast í breytingar á skipinu. Að sögn Sigurðar Áss Grétarssonar, framkvæmdastjóra siglingasviðs Vegagerðarinnar, var það gert til að gera það betra til siglinga til Þorlákshafnar, á kostnað siglinga til Landeyjahafnar. Einnig að lengja það til að halda djúpristu. Þá ákvað samgönguráðherra að gera breytingar þannig að unnt yrði að knýja skipið alfarið með rafmagni í siglingum til Landeyja. Skilatíma var frestað til 22. september, vegna þessara breytinga.

Mikinn búnað þarf í skipið og í landi til að hægt sé að nota rafmagn. Skrifað hefur verið undir samning um landtengibúnað. Afl hans er 2,5 MW en til samanburðar má geta þess að afl nýjustu virkjunar Landsvirkjunar, Búrfellsstöðvar II, er 100 MW. Búnaðurinn er sjálfvirkur og á að tengjast við ferjuna á nokkrum sekúndum og hleðslan á aðeins að taka 30 mínútur. Tenglar verða bæði á stjórnborð- og bakborðshlið Herjólfs og kló á landtengiturnum í Vestmannaeyjum og Landeyjahöfn. Búnaðurinn kostar 225 milljónir króna, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar.

Enn langt í fyrstu ferð

Síðan hefur skipasmíðastöðin lent í seinkunum, óskaði fyrst eftir framlengingu skilafrests til 15. október og tilkynnti síðar einhliða seinkun til 15. nóvember. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er fólk sem þekkir til verksins ekki sannfært um að sú áætlun gangi eftir. Sigurður segir að miðað við gang verksins sé ekki útilokað að tímasetningin standist. Forsvarsmenn skipasmíðastöðvarinnar virðist sannfærðir um það sjálfir.

Siglingin til Íslands tekur að minnsta kosti viku. Sigurður segir ekki óalgengt að laga þurfi atriði sem komi upp á siglingunni. Síðan þurfi rekstraraðilinn, félag á vegum Vestmannaeyjabæjar, að undirbúa reksturinn, meðal annars með pappírsvinnu, björgunaræfingum og uppsetningu ýmiss búnaðar. Ljóst er af þessu að komið verður eitthvað fram í desember þegar siglingar geta hafist.

Styttist í uppsagnir

Eimskip rekur gamla Herjólf þar til ný ferja hefur siglingar en samningurinn við ríkið rennur endanlega út um áramót. Fyrirtækið hefur sagt upp starfsmönnum sem hafa 4 og 6 mánaða uppsagnarfrest en hefur beðið með uppsagnir þorra starfsfólksins sem hefur þriggja mánaða uppsagnarfrest. Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs, segir að þær uppsagnir verði að óbreyttu tilkynntar undir lok þessa mánaðar þannig að starfsfólkið hætti um áramót.

Gunnlaugur segir að félagið hafi lengi annast þessar siglingar og vilji skila verkefninu af sér með sóma. Ef frekari dráttur verði á því að nýja ferjan komist í gagnið sé Eimskip reiðubúið að ræða framlengingu samninga, að höfðu samráði við starfsfólkið. Vegagerðin hefur einnig þann kost að fela rekstrarfélagi Vestmannaeyjabæjar að taka við rekstri gamla Herjólfs, þegar samningur Eimskips rennur út.

Eftir að breyta höfninni

Landeyjahöfn hefur venjulega verið alveg eða að mestu lokuð fyrir Vestmannaeyjaferjuna frá því í lok nóvember eða byrjun desember og fram í mars eða apríl. Eftir er að koma í ljós hvernig nýju ferjunni vegnar í vetur. Til stendur að gera breytingar á Landeyjahöfn til að gera siglingar nýju ferjunnar öruggari, meðal annars með stækkun snúningspláss í höfninni og landföstum dýpkunarbúnaði. Skrifað var undir samninga við Ístak í gær en ljóst er að endurbæturnar verða ekki tilbúnar fyrr en næsta haust. Samningsupphæð er 743 milljónir.

Sigurður segir að þótt stjórnhæfni nýja skipsins sé betri en gamla Herjólfs og það ristri grynnra verði frátafir frá siglingum í Landeyjahöfn væntanlega nokkrar í vetur, meiri en gert sé ráð fyrir í framtíðinni. Ferjan muni alltaf geta siglt til Landeyjahafnar, þegar veður er gott. Hún eigi að vera gott sjóskip og geti siglt til Þorlákshafnar þegar Landeyjahöfn lokast.