Átök Gullstyttan af Erdogan var fjarlægð eftir að kom til átaka.
Átök Gullstyttan af Erdogan var fjarlægð eftir að kom til átaka. — AFP
Umdeild stytta af Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta var fjarlægð í vikunni í Wiesbaden í Þýskalandi þar sem borgarstjóra þótti ekki lengur hægt að tryggja að hún yrði ekki skemmd en til átaka kom milli andstæðinga og stuðningsmanna forsetans á...

Umdeild stytta af Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta var fjarlægð í vikunni í Wiesbaden í Þýskalandi þar sem borgarstjóra þótti ekki lengur hægt að tryggja að hún yrði ekki skemmd en til átaka kom milli andstæðinga og stuðningsmanna forsetans á torginu sem hún stóð á. Styttan er gyllt og bendir Erdogan út í fjarskann og augljóst að um ádeiluverk er að ræða. Styttan var sett upp í tengslum við tvíæring þar í Wiesbaden og hefði ekki staðið þar lengi þegar búið var að skrifa á hana ummæli á borð við „tyrkneski Hitler“ og önnur í þeim dúr og kom síðar til slagsmála.

Hulda Rós Guðnadóttir myndlistarkona tjáir sig um styttuna á Facebook-síðunni Menningarátökin og segir hér áhugavert umræðuefni á ferðinni: „ Sannarlega átök sem vill svo til að tengjast íslensku listasenunni vegna listamannsins að baki. Athuga að listamaður er ekki nafngreindur að ósk listamannsins sem vill að fókus fari á verkið sjálft og umræðu í kringum það. Þessi grein er á ensku en þýskir fjölmiðlar eru að ræða þetta fram og til baka og áhrifavaldar á þýsku listasenunni að dreifa tenglum út um alla fésbók. Í ljósi þess að Ísland er nýbúið að skrifa undir fríverslunarsamning við Tyrkland ætti þessi stytta, sem búið er að taka niður, e.t.v. að vera sett upp hér á Íslandinu? E.t.v. færu fjölmiðlar þá að ræða meira hvað þessi fríverslunarsamningur segir um Ísland?“

Greinin sem Hulda vísar í er á vef dagblaðsins Guardian og segir frá fyrrnefndum átökum vegna styttunnar. Ekki náðist í Huldu í gær og eins og hún greinir frá vill listamaðurinn ekki láta nafns síns getið. Vefur breska ríkisútvarpsins segir hins vegar að „listamenn“ hafi gert styttuna, þ.e. fleiri en einn. Hvort þar eru Íslendingar á ferð fylgir ekki sögunni, eins og gefur að skilja.