Bátar Samkepnisstaða sjávarútvegsfyrirtækja er skökk í ýmsu, segir formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda.
Bátar Samkepnisstaða sjávarútvegsfyrirtækja er skökk í ýmsu, segir formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisso
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Föst ísprósenta væri betri en eftirlit með vigtun afla og stór afsláttur er gefinn af hagvexti byggðum á sjávarútvegi með því að flytja hráefni óunnið úr landi, segir Arnar Atlason, formaður Samtaka fiskframleiðenda og -útflytjenda.

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Mín tilfinning er sú að það er alltof oft litið á sjávarútveginn eins og gamla klukku sem tifi stöðugt áfram – að hann virki bara af sjálfu sér án þess að nokkur þurfi að koma þar nærri. En sú hugsun er algjör tímaskekkja,“ segir Arnar í samtali við 200 mílur.

„Á tyllidögum og þegar haldnar eru sjávarútvegssýningar þá er talað um tækniframfarir og okkar flottustu tæknifyrirtækjum er hampað – þau eru gríðarlega flott – en á sama tíma erum við að gefa ótrúlega stóran og mikinn afslátt af hagvexti byggðum á sjávarútvegi með því að flytja hráefnið okkar í stórum stíl heilt og óunnið úr landi.“

Grundvallaratriðin óspennandi

Arnar segir að innan raða SFÚ sýni menn þeim ráðamönnum lítinn skilning, sem láti þetta óátalið.

„En það virðist engin stemning vera fyrir fiskvinnslu á Íslandi. Á sama tíma og talað er um hæstu framleiðni einstakrar atvinnugreinar á Íslandi og annað slíkt, þá virðist ekki spennandi að huga að grundvallaratriðunum,“ segir Arnar.

Bendir hann á að mikið sé gert til að vernda fiskinn í lögsögu Íslands frá erlendum veiðiþjóðum, en töluvert minna sé gert til að hindra að þær þjóðir vinni fiskinn og fái þar með úr honum aukin verðmæti.

„Við getum breytt dæminu til að komast betur að því hversu mikilvæg fiskvinnsla hérlendis er fyrir þjóðarhaginn. Þætti okkur til dæmis eðlilegt ef Kínverjar, Portúgalar eða einhverjar aðrar þjóðir myndu sjá um að veiða allan fisk á Íslandsmiðum? Eða myndum við þá ekki hrökkva við? Hvar ætlum við að láta staðar numið?

Ef þetta snýst um það hver sé markaðslega hæfastur þá er ekkert víst að veiðigjaldið, sem íslenskar útgerðir eru tilbúnar að borga, sé neitt voðalega hátt. Aðrar þjóðir væru nefnilega eflaust tilbúnar að borga margfalda þá upphæð til að fá að veiða við landið. En er það þjóðhagslega hagkvæmt? Hvað er rétt og hvað er rangt?“

Ekki frjáls markaður í raun

„Við skiljum vel það sjónarmið að almennt eigi markaðir að starfa frjálsir og að þannig náist hámörkun framlegðar, en við erum ekki að tala um frjálsan markað í þessu tilliti,“ segir Arnar.

„Við erum nefnilega að sjá óunnið hráefni flutt til Evrópulanda, sem eru nánast undantekningalaust að keyra sinn sjávarútveg á styrkjum. Við getum því ekki talað um þetta eins og frjálsan markað – eins og þetta sé eðlilegt ástand,“ segir hann og bætir við að stærstu sjávarútvegsfyrirtækin á Íslandi séu farin að flytja út heilan, óunninn fisk í gámavís.

„Fiskurinn getur runnið hömlulaust óunninn héðan úr landi, og ég fullyrði að það veikir þjóðarhag, jafnvel þó það kunni að bæta hag þeirra fyrirtækja sem hann stunda. Þetta orsakast að einhverju leyti af því að við hér á landi erum orðin tiltölulega ósamkeppnisfær þegar kemur að launakostnaði, en í okkar huga væri brýnt að rifja upp hvernig við horfðum til þessara mála upp úr aldamótum,“ segir Arnar.

Sláandi vísbendingar um þróun

Rifjar hann upp að sérstakt útflutningsálag hafi þá verið lagt á til að vernda íslenskan fiskiðnað. „Vegna þess að hann var þá talinn skipta máli. Í dag horfir öðruvísi við.“

Nefnir Arnar skarkola sem dæmi, þar sem þriðjungur af þeim afla sem veiðst hefur frá janúarmánuði hefur verið fluttur óunninn út til Hollands að hans sögn.

„Þetta eru sláandi vísbendingar um þróun mála og mér finnst sem ráðamenn þjóðarinnar fljóti sofandi að feigðarósi í þessum málaflokki. Þarna eru störf hundraða ef ekki þúsunda að veði,“ segir hann.

„Það er ekki langt síðan hingað kom Breti í heimsókn til að skoða fiskvinnslurnar. Hann sagði það vera milljarða virði, að fá hráefnið óunnið í vinnslurnar þar í landi. Þá hlýtur það að vera okkur hér, sem viljum vinna fiskinn á Íslandi, sömu milljarðanna virði.“

„Þá verðum við bara undir“

„Við megum ekki vera föst í því hugsanafari að hér sé allt frábært og að varla sé hægt að gera betur. Því við getum gert svo miklu betur,“ segir hann og bendir á annað dæmi:

„Við höfum oft álitið okkur Íslendinga standa að einhverju leyti framar Norðmönnum þegar kemur að sölustarfseminni. Nú hefur sú þróun orðið þar að þessi stóru laxeldisfyrirtæki, sem nánast hafa fullkomnað markaðssetningu afurða sinna, eru smám saman að færa sig inn í hvítfiskinn. Og ef við hugum ekki að markaðssetningu á okkar vöru, þá verðum við bara undir. Þetta er voðalega einfalt mál.“

Arnar segir enn fremur mikilvægt að framtíð íslensku fiskmarkaðanna verði tryggð.

„Fiskmarkaðina verður að verja, það eru allir sammála um það – að minnsta kosti hef ég ekki hitt þann mann sem vill leggja það til að loka þeim. Þeir eru eini vettvangur frjálsrar verðmyndunar á fiski sem hráefni á Íslandi. Nýjasta dæmið um þróun sem vinnur gegn fiskmörkuðunum er þessi útflutningur í gámavís úr landi, en stór hluti af honum kemur í gegnum fiskmarkaðina,“ segir hann.

Vinnur á móti mörkuðunum

„En hver er helsti óvinur fiskmarkaðanna? Jú, það er þessi tvöfalda verðmyndun. Útgerðarmanninum er alltaf hegnt fyrir það að landa á fiskmarkaði, því þá þarf hann að borga hærri laun. Í síðustu kjarasamningum sjómanna var einfaldlega um þetta samið, að menn fengju afslátt ef þeir lönduðu ekki á fiskmarkaði,“ segir Arnar.

„Það hlýtur að segja sig sjálft að það vinnur gríðarlega mikið á móti fiskmörkuðum – og nánast eins og það sé gert þeim til höfuðs. Sjómenn verða að velta því fyrir sér hvort þeir geti á sama tíma annars vegar gagnrýnt lágt fiskverð og hins vegar ýtt undir minnkandi vinnslu fisk á Íslandi með slíkum ákvæðum í kjarasamningum.“

Víkur hann þá máli sínu að væntanlegu frumvarpi um aukið eftirlit með veiðum og löndunum afla.

„Það hlýtur eitthvað mikið að vera að sem veldur því að farið sé af stað með þetta frumvarp. Eins og dæmin sanna þá hafa enda komið upp ljót mál, og í kjölfarið eru stjórnvöld greinilega að velta þessu fyrir sér,“ segir hann og bætir við að frumvarpið sé á gráu svæði hvað varðar persónuvernd og aðra þætti.

Tvenns konar freistnivandi

Að sama skapi bendir hann á að til séu annars konar lausnir.

„Þetta myndavélaeftirlit snýst náttúrlega að tvenns konar freistnivanda. Annars vegar þegar sjómaður í umboði útgerðarmannsins stendur frammi fyrir því að vera með verðlítinn afla, og finnur þá fyrir freistingu til að kasta þeim verðlitla afla í sjóinn, eins og ítrekað hefur verið fjallað um.

Hins vegar er um að ræða vigtarmálin, þar sem sú undarlega ráðstöfun er uppi að fyrirtæki sem bæði veiða og vinna aflann hafa í mörgum tilfellum heimild til þess að vigta eigin afla án aðkomu annars eða þriðja aðila. Freistingin í þeim tilfellum er rík til að minnka magnið og þar með spara kostnað í formi launa, hafnargjalda og veiðiheimilda,“ segir Arnar.

Þá bendir hann á að til langs tíma hafi verið uppi hugmyndir um fasta ísprósentu. „Í því fælist gríðarlega mikill sparnaður fyrir hið opinbera, að hreinlega losna við eftirlit og eftirfylgni með allri þessari endurvigtun, sem hefur verið mjög umdeild. Í stað þess kæmi föst ísprósenta að sumri, föst ísprósenta að vetri, föst ísprósenta á dagróðrarbáta og föst ísprósenta á útilegubáta.“

Margfalt betri leið en hin

„Þetta er mönnum í lófa lagið og þá hefur útgerðarmaðurinn í raun um tvennt að velja, annars vegar að ísa nóg og fá gott verð fyrir aflann, eða ísa ekki nóg og fá lakara verð fyrir aflann, en spara sér þá að einhverju leyti veiðiheimildirnar. Að okkar viti er þetta margfalt betri leið að þessu markmiði, heldur en að auka endalaust eftirlitsiðnaðinn. Tilhugsunin um mögulegt myndavélaeftirlit vekur mig að minnsta kosti til umhugsunar um það, hvert við erum komin í allri þessari umræðu.“

Hvað brottkastið varðar segir Arnar að oft hafi gleymst það tilraunaverkefni sem farið var af stað með fyrir fáeinum árum, sem nefnist VS-afli, sem gildir til að mynda um veiðar á ufsa hjá strandveiðibátum. Það verkefni segir hann hafa gengið langt framar væntingum. Heimild skipa til að koma með verðlítinn afla að landi með þessum hætti snarminnki líkur á brottkasti í stórum stíl eins og dæmi séu um.

Hentu skötuselnum áður fyrr

„Útgerðum var þá gert heimilt að landa þeim afla sem þær gætu hugsanlega ellegar hafa hent, þar sem ekki hefði svarað kostnaði að landa honum. Fullur afsláttur af kvóta var veittur af þessum afla en á móti kom að þær fengu auðvitað afskaplega lítið greitt fyrir aflann. Eftir stóð að þær töpuðu þó ekki á að koma með hann að landi,“ segir Arnar.

„Snilldin í þessu öllu var sú að verðmæti þessa afla rann beint til Hafrannsóknastofnunar, og hefur stóraukið tekjur stofnunarinnar. Þetta mætti útvíkka enn þá frekar og það myndi klárlega verða til þess að brottkast myndi minnka. Það er auðvitað alltaf eitthvert verðmæti fólgið í öllum afla. Þú getur farið fjörutíu ár aftur í tímann og séð hvar menn hentu skötusel. Slíkt þætti fásinna í dag. Það sama gildir eflaust um þann afla sem einhverjum þykir sjálfsagt að kasta á brott nú á dögum.“

Sátt um að hlutir séu í ólagi

Að lokum segir Arnar samtökin hafa í áraraðir bent á skakka samkeppnisstöðu sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi.

„Það hefur ítrekað komið fram og felst fyrst og fremst í tvöfaldri verðmyndun, en sjómönnum í landinu eru enn þann dag í dag greidd mismunandi laun fyrir sömu vinnu. Þetta hefur að okkar viti, í öll þessi ár, unnið á móti íslenskri fiskvinnslu, og er og verður eitt af okkar helstu áherslumálum. Og þegar ég lít yfir fiskveiðiárið þá finnst mér athyglisvert hversu lítil umræða hefur verið um þessa óumdeilanlegu staðreynd. Mér sýnist ríkja mikil sátt um að hlutirnir séu hreinlega í ólagi.“

Þá bendir hann á að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, hafi ákveðið að framkvæma í samstarfi við OECD svokallað samkeppnismat á rekstarumhverfi ferðaþjónustu og byggingariðnaðar. „Það væri fagnaðarefni ef slíkt væri jafnframt gert í sjávarútvegi, enda hefur samkeppniseftirlitið ítrekað bent á samkeppnishamlandi þætti innan hans.“