Fljótur HK-ingurinn Zeiko Lewis á fullri ferð í leiknum gegn Njarðvík.
Fljótur HK-ingurinn Zeiko Lewis á fullri ferð í leiknum gegn Njarðvík. — Morgunblaðið/Valli
HK úr Kópavogi steig í gærkvöld enn eitt skref í áttina að sæti í úrvalsdeild karla í knattspyrnu með því að sigra Njarðvíkinga 1:0 í Kórnum.

HK úr Kópavogi steig í gærkvöld enn eitt skref í áttina að sæti í úrvalsdeild karla í knattspyrnu með því að sigra Njarðvíkinga 1:0 í Kórnum.

Brynjar Jónasson skoraði sigurmarkið eftir hornspyrnu Ásgeirs Marteinssonar þegar um hálftími var liðinn af leiknum. Robert Blakala átti stórleik í marki Njarðvíkinga og forðaði sínum mönnum frá stærra tapi, en þeir eru áfram í fallbaráttu.

HK komst með sigrinum upp fyrir ÍA og í efsta sætið með 42 stig en Skagamenn eru með 40 og sækja botnlið Magna heim í dag.

HK er nú sjö stigum á undan Þrótti R. og Víkingi Ó. Vonir Þróttara dvínuðu verulega með ósigri gegn Haukum á heimavelli í gærkvöld, 1:2, en Ólafsvíkingar taka á móti Þórsurum í lykilleik á morgun þar sem hvorugt liðið má við að tapa stigi, ætli þau sér að ná HK eða ÍA á lokasprettinum.

HK mætir Fram, ÍR og Haukum í þremur síðustu umferðunum og ljóst er að tveir sigrar myndu koma liðinu upp í efstu deild, hvernig sem aðrir leikir fara. Þá kemur það Kópavogsliðinu líka til góða að ÍA og Víkingur Ó. eiga eftir að mætast.

Haukar stöðvuðu óvænt sigurgöngu Þróttara, sem höfðu unnið sjö af síðustu átta leikjum sínum. Arnar Aðalgeirsson og Elton Barros komu Haukum í 2:0 í Laugardalnum áður en Viktor Jónsson minnkaði muninn fyrir Þrótt með sínu 19. marki í deildinni á þessu tímabili. vs@mbl.is