Handtök Fiskvinnslutæki í dag eru orðin afar háþróaður búnaður.
Handtök Fiskvinnslutæki í dag eru orðin afar háþróaður búnaður.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Marel heldur í lok september sýningu fyrir þá viðskiptavini sína sem stunda vinnslu á hvítfiski víða um heim. Sýningin, sem nefnist Whitefish ShowHow, fer fram í Progress Point, sérstöku sýningarhúsi í Kaupmannahöfn.

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Marel heldur í lok september sýningu fyrir þá viðskiptavini sína sem stunda vinnslu á hvítfiski víða um heim. Sýningin, sem nefnist Whitefish ShowHow, fer fram í Progress Point, sérstöku sýningarhúsi Marels í Kaupmannahöfn.

Sýning þessi er árleg og hefur notið töluverðra vinsælda, en um 150 gestir hennar á síðasta ári komu víða að og voru frá fleiri en þrjátíu löndum – frá Suður-Ameríku, Evrópu, Asíu og Eyjaálfu. Búist er við svipuðum fjölda í ár að sögn Sigurðar Ólasonar, framkvæmdastjóra fiskiðnaðar hjá Marel.

„Áherslan hjá okkur er á fjórðu iðnbyltinguna, sem hefur verið í gangi undanfarin ár, og ég held að viðskiptavinirnir séu farnir að átta sig á því að framtíðin felst í henni,“ segir Sigurður í samtali við 200 mílur, spurður hvað sé helst á döfinni hjá Marel um þessar mundir.

Hann segir Marel einstaklega vel í stakk búið til að nýta sér byltinguna sem byr í seglin, enda eigi fyrirtækið rætur að rekja til þeirra sömu þátta og gera byltinguna mögulega.

Kerfið hámarkar framleiðsluna

„Frá stofnun félagsins fyrir hartnær fjörutíu árum hefur markmiðið ávallt verið að safna sem mestum gögnum úr vinnsluferlinu til að framleiðendur geti tekið út frá þeim réttar ákvarðanir. Vélar okkar eru útbúnar háþróuðum tækjahugbúnaði en Innova-notendahugbúnaðurinn okkar sér svo um að safna gögnum úr öllu vinnsluferlinu í rauntíma og gefur stjórnendum þannig gríðarlega mikilvægt tól til að besta annaðhvort einstakar vélar eða allt vinnsluferlið,“ segir Sigurður en bendir á að næsta skref verði að sjálfvirknivæða sjálfa ákvörðunartökuna.

„Notandinn fer þá kannski meira út í að upplýsa kerfið um þær pantanir sem eru til staðar og síðan sér kerfið um að hámarka framleiðsluferlið með eigin ákvörðunartöku, ef svo má segja.“

Á döfinni er einnig að innleiða betur nokkurs konar forspárviðhald. „Þá á kerfið að geta séð fyrir hvað þarf að gera, miðað við það hvernig vinnsla er í gangi, hversu lengi vélarnar eru búnar að vinna og þar fram eftir götunum,“ segir Sigurður.

Höfðu komið í vinnsluna áður

Sýndarveruleikatæknin, sem Marel hefur í auknum mæli nýtt sér undanfarin ár, hefur einnig komið að virkilega góðum notum að sögn Sigurðar. „Með þeirri tækni getum við sýnt viðskiptavininum fullbúnar verksmiðjur, þar sem hann sér hvernig vinnsluferlið myndi ganga fyrir sig, áður en verksmiðjan er sett upp. Þarna getum við t.d. álagsprófað verksmiðjuna og um leið getur viðskiptavinurinn jafnvel farið að æfa sig í að framleiða í verksmiðjunni,“ segir hann og nefnir dæmi:

„Við notuðum sýndarveruleikatæknina nýverið í Noregi þar sem laxeldisfyrirtæki var búið að kaupa af okkur vinnslubúnað. Viðskiptavinurinn vissi þá alveg hvernig vinnslan myndi ganga áður en hún fór af stað. Auk þess kom í ljós að tæknin nýtist líka við uppsetningu verksmiðjunnar sem tók í þessu tilfelli styttri tíma en áður tíðkaðist. Starfsfólkið okkar vissi þá alveg hvert hlutirnir áttu að fara við uppsetninguna – það hafði jú eiginlega verið inni í verksmiðjunni áður.“

Greinir hvort los sé í fiskinum

Fleiri tækninýjungar eru í farvatninu hjá Marel, en fyrirtækið hefur að undanförnu leyft FleXiCut-skurðarvélinni að notast við gervigreind. „Á þessari sýningu munum við sýna hvernig vélin getur flokkað flökin eftir því hvort los sé í fiskinum eða ekki. Við erum með öflugan röntgen-lampa og út frá honum búum við til þvívíddarlíkan af flakinu, en það höfum við gert alveg frá upphafi. Við erum því með flakið í þrívídd, en nú notum við þau gögn áfram inn í gervigreindina, sem nýtir þau til að ákvarða hvort og hversu mikið los sé í fiskinum. Einnig eru gögnin notuð til að staðsetja beinin, sem er hægt að gera með mjög mikilli nákvæmni þegar til staðar er þrívíddarlíkan af flakinu, en það er virkni sem líka hefur verið frá upphafi.“

Á sýningunni verður sérstök áhersla lögð á sjálfvirknivæðingu í gæðaskoðun. „Eins og gæðaskoðun hefur verið hingað til þá hafa gjarnan verið tekin slembiúrtök, sem síðan eru skoðuð, en með tilkomu FleXiCut erum við komin með stöðuga gæðaskoðun þar sem öll flök sem fara í gegnum vélina eru skoðuð,“ segir Sigurður og útskýrir:

„Við tökum röntgen-myndir af öllum flökunum og út af rekjanleikanum sem byggður er í kerfið þá geturðu gefið endurgjöf inn á starfsstöðvar snyrtaranna sem eru útbúnir litaskjáum, þar sem viðkomandi sér fyrir framan sig nokkurs konar hitakort af flakinu, þar sem gallar eru lýstir upp. Endurtaki mistökin sig í kjölfarið á öðrum flökum lýsist staðsetning gallans sífellt meira upp. Snyrtirinn áttar sig þá á því að þarna eru gallar sem hann þarf að fást við og þarf að bæta sig í.“

Önnur nýjung á sýningunni er svokallaður gæðaskanni sem mynd- og litgreinir yfirborð flaksins og getur t.d. greint litbrigði í flakinu eins og mar eða blóðbletti sem og útlínur flaksins og metið hvort eitthvað megi betur fara.

Áreiðanleiki og þjónusta

Spurður um helstu áskoranir framundan segir Sigurður að asinn sé orðinn mikill í geiranum. „Það vilja allir að hlutirnir gerist á stundinni. Það er svo mikið að gerast og svo mörg verkefni í gangi að ég finn mig knúinn til að minna á það að þetta er langhlaup, ekki sprettur. Númer eitt, tvö og þrjú snúast áskoranirnar líka um áreiðanleika vélanna og þjónustuna,“ segir hann.

Í því samhengi bendir Sigurður á að öflug tölvutækni nútímans hefur einnig opnað möguleikann á að safna saman gögnum úr FleXiCut-vélunum víða um heim og nýta þau til að hjálpa viðskiptavinum að bera sig saman við aðra sem hafa sömu vélar í notkun. „Við erum alltaf að hugsa um hvernig við getum nýtt þau gögn sem aflað er við vinnsluna og þetta er mjög spennandi verkefni.“

„Það er eitt að geta teiknað upp flotta verksmiðju en svo þarf hún að vera notendahæf, hún þarf að vera með hugbúnað sem stýrir henni út frá einhverjum miðlægum stað, og stjórnandinn þarft að hafa yfirsýn yfir hvað er að gerast. Síðan þarf að sjálfsögðu að hafa teymi sem er reiðubúið að þjónusta verksmiðjuna og halda henni við. Það sem við erum að sjá núna og er klárlega áskorun, það er að flækjustigið á þessum kerfum er að margfaldast. Er því lykilatriði að vera í nánu sambandi við okkar viðskiptavini og að við náum að þjónusta þá vel.“