[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Laugardal Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Búast má við því að Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari haldi sig við svipaða „uppskrift“ gegn Þýskalandi í dag og í sigrinum frækna gegn Þjóðverjum í fyrrahaust.

Í Laugardal

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Búast má við því að Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari haldi sig við svipaða „uppskrift“ gegn Þýskalandi í dag og í sigrinum frækna gegn Þjóðverjum í fyrrahaust. Freyr vildi þó ekkert sýna á spilin á fréttamannafundi í gær fyrir stórleikinn sem skilað gæti Íslandi á HM í fótbolta.

Morgunblaðið reiknar með því að varnarlína Íslands verði hefðbundin. Það þýðir að fyrir framan Guðbjörgu Gunnarsdóttur markvörð spila miðverðirnir Glódís Perla Viggósdóttir, Sif Atladóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir. Löng innköst Sifjar reyndust dýrmætt sóknarvopn í sigrinum í Þýskalandi. Bakverðir verða þær Rakel Hönnudóttir og Hallbera Guðný Gísladóttir, ef að líkum lætur.

Á miðjunni er stórt skarð fyrir skildi þar sem Dagný Brynjarsdóttir er ekki með, en hún átti hugsanlega besta leik sinn á ferlinum í sigrinum á Þýskalandi þar sem hún skoraði tvö mörk og lagði upp eitt. Sara Björk Gunnarsdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir verða á sínum stað en erfiðara er að spá fyrir um þriðja miðjumann. Það hlutverk gæti Sigríður Lára Garðarsdóttir eða Selma Sól Magnúsdóttir fengið, en báðar hafa leikið vel í Pepsi-deildinni í sumar og Sigríður Lára er nú komin til Noregsmeistaranna Lilleström.

Ef Freyr stillir upp í 5-3-2 kerfi svipuðu því sem hann gerði í fyrri leiknum við Þýskaland er þá aðeins eftir að spá fyrir um tvo fremstu leikmenn. Freyr gæti treyst á hraða og hæfileika Fanndísar Friðriksdóttur og Elínar Mettu Jensen, líkt og í fyrri leiknum, en Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Agla María Albertsdóttir gera einnig sterkt tilkall til sætis í byrjunarliðinu.

„Við fórum inn í verkefnið með skýra mynd af því sem við ætluðum að gera og undirbúningur hefur verið undir þeim áhrifum allan tímann. Þetta er einstakur leikur og það er langt síðan ég hef sýnt byrjunarliðið eins skýrt frá fyrsta degi, í taktískum æfingum. Leikmenn skilja það fullkomlega, því þessi leikur snýst um smáatriði og við þurfum að hafa taktísku hlutina algjörlega á hreinu til þess að eiga möguleika,“ sagði Freyr.

Þær koma snarbrjálaðar

Freyr og Sara Björk Gunnarsdóttir fyrirliði sátu fyrir svörum og virkuðu hæfilega afslöppuð og einbeitt. Það kemur svo sem ekki á óvart. Sara hefur spilað marga stórleiki, síðast sjálfan úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu sem eins og leikurinn í dag fór fram á fullum leikvangi. Aðrir leikmenn gætu lent í vandræðum með að höndla tilefnið – að spila upp á HM-sæti í fyrsta sinn fyrir framan fullan Laugardalsvöll – en Sara og Freyr gerðu sitt besta til að fullvissa okkur blaðamenn um að spennustig leikmanna væri ekki sérstakt áhyggjuefni.

„Við erum að fara að spila einn stærsta leik sem við höfum spilað og maður sér ekki mikið stress heldur bara einbeitingu,“ sagði Sara. „Leikurinn verður klárlega erfiður. Við spiluðum frábærlega úti og þó að við hefðum þannig séð verið ánægð með eitt stig þar fengum við þrjú og áttum þau fyllilega skilið. Ég held að þær þýsku komi snarbrjálaðar út á völlinn og þetta verður eflaust enn erfiðari leikur en síðast gegn þeim,“ sagði fyrirliðinn. Sara veit betur en flestir út í hvað íslenska liðið er að fara, enda verið samherji eða mótherji allra leikmanna þýska liðsins síðustu tvö ár. Hún veit að pressan er mun meiri á Þjóðverjum og undir það tekur Freyr:

„Það hjálpar til að við erum að spila við stórveldi. Þetta er rosalegt. Ef þær ná ekki fram sigri er það katastrófa fyrir þær. Það telst eðlilegt ef við náum ekki sigri, en við erum ekkert eðlileg og ætlum okkur alltaf sigur,“ segir Freyr, sem vill ekkert velta vöngum yfir möguleikanum á að tapa leiknum og þurfa að freista þess að komast á HM í gegnum umspil:

„Mig langar að klára þetta núna. Mig langar bara að halda partí [í kvöld].“