— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Engin skýring hefur hins vegar verið gefin á því af hverju hver ríkisstjórnin af annarri, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur til drjúgan stuðning, þótt hann sé enn fjarri því að hafa náð vopnum sínum, birtist í sífellu með þennan ógeðfellda laumufarþega innanborðs.

Þótt því sé haldið fram af einhverjum að sumarið 2018 hafi aldrei komið er eftirsjá að því eins og öðrum sumrum. Kvöldblíðan lognværa á þó iðulega sviðið í september og kyssir hvern reit, svo of fljótt er að örvænta. Eitt af því sem gerir sumartíð svo huggunarríka á Íslandi er að þessar vikur sem nóttin hverfur úr sólarhringnum liggur pólitískur áhugi í dvala. Það tekur hann tíma að komast á dagskrá þótt fyrstu merki skammdegis sjáist.

Því var eftirtektarvert að þegar nokkur félög sjálfstæðismanna í Reykjavík boðuðu til fundar síðdegis á fimmtudegi upp í Valhöll skyldi húsið fyllast út úr dyrum. Úti var slengjandi slagveður og öll bílastæði tekin um það bil sem fundur hófst, en menn settu undir sig hausinn og flykktust inn.

Strembið fundarefni

Þó var fundarefnið og yfirskrift þess ólíklegt til að „trekkja,“ og það jafnvel þótt árstíminn hefði verið upplagðari fyrir pólitík: „Væntanleg innleiðing þriðja orkumálapakka Evrópusambandsins inn í EES samninginn.“

Það þyrfti að hafa fyrir því að finna óálitlegra fundarefni en þetta.

Kannski þess vegna hafa einhverjir talið sér óhætt að læða málinu framhjá þjóðinni kjallaramegin, þótt líkindi stæðu til þess að embættiskerfið væri að láta stjórnmálaforystuna brjóta stjórnarskrána.

Embættiskerfið ber enga ábyrgð en stjórnmálamenn gera það og sjálf stjórnarskráin mælir fyrir um að þannig skuli það vera.

En fundarsóknin í kjölfar einnar blaðaauglýsingar samdægurs svarar því til að þessu máli verður ekki svo auðveldlega svindlað í gegn, þrótt brotaviljinn virðist óþægilega einbeittur.

Pakkinn opnaður

Fjórir prýðilegir framsögumenn voru á fundinum um orkumálapakkann. Þeir voru hver með sinn þátt undir og var það gagnlegt. Um sumt virtist málið flókið en á daginn kom að það sem skiptir máli var einfalt. Erindin voru ítarleg og vönduð og fundarmenn virkir og því teygðist verulega á fundinum án þess að þynntist á bekkjunum.

Varla getur nokkur maður sem leitar sér lágmarksupplýsinga efast um það að þessi pakki verði færður inn í íslenska löggjöf og reyndar látinn yfirtaka mikilvægan þátt hennar, að óbreyttum stjórnskipunarlögum landsins. Það er jafn örðugt að sjá nokkra ástæðu til þess að þeim sömu stjórnaskipunarlögum yrði breytt til þess að tryggja framgang þessa máls. Það gengur hvert sem litið er öndvert á hagsmuni þjóðarinnar.

Hin raunverulega ástæða

Þótt það hafi aldrei verið viðurkennt upphátt gengur undarlegur og ógeðfelldur hringlandi um stjórnarskrá landsins augljóslega út á það meginatriði að gera þeim flokkum sem amast mest við íslensku fullveldi auðveldara að koma því fyrir kattarnef.

Engin skýring hefur hins vegar verið gefin á því af hverju hver ríkisstjórnin af annarri, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur til drjúgan stuðning, þótt hann sé enn fjarri því að hafa náð vopnum sínum, birtist í sífellu með þennan ógeðfellda laumufarþega innanborðs. Þessi kynlegi kækur gerir landsmönnum erfiðara en ella að gleyma gönuhlaupi flokksins þegar hann birtist óvænt og skýringalaust sem björgunarhringur Jóhönnu og Steingríms í Icesave. Stór hluti þáverandi kjósenda flokksins hefur ekki enn fyrirgefið þetta og þeim sem öðrum bregður jafnan þegar glittir í tilþrif af því tagi. Flokkurinn gat aldrei útskýrt málatilbúnað sinn, ekki fremur en hitt að hann reyndist ófær um að afturkalla aðildarumsókn að ESB, sem þarf aðeins einfalda þingsályktun til. Slík tillaga var lögð fram og eftir það var fullkomlega óhjákvæmilegt að afgreiða hana. Það var ekki gert þótt heilt þing væri til þess. Aldrei hefur verið upplýst hvers vegna flokkurinn hefur staðið að því í fjórum ríkisstjórnum í röð að gera atlögu að lýðveldisstjórnarskránni og það jafnvel eftir að flokksbrotið sem var áhugasamt um það var horfið úr flokknum.

Skýringarleysið er verst

Fréttir af „formannafundi í Þingvallabæ“ báru allar með sér að tilgangurinn var ekki annar en sá að læðast aftan að íslensku fullveldi. Og nú virðist þessi orkupakki orðinn að bögglingi Sjálfstæðisflokksins!

Landsfundur hefur þegar afgreitt málið með þunga. Það var m.a. gert á sama fundi og núverandi iðnaðarráðherra var kjörinn varaformaður.

Þess vegna er erfitt að horfa upp á þann ráðherra láta rugla sig í ríminu. Rökin sem helst eru nefnd eru ekki beysin. „Það myndi eitthvað mjög alvarlegt koma fyrir ef við hlýðum ekki skrifstofumönnum í Brussel, eins og við gerum alltaf.“

Þetta var reyndar inntakið í gerningaveðri áróðursins vegna Icesave.

Og því er gjarnan bætt við að Brusselvaldið gæti tekið upp á að refsa okkur ef við hlýddum ekki fyrirmælum þess.

Eins gott

Það er gleðiefni fyrir þjóðina að útfærsla íslenskrar landhelgi er ekki í höndunum á stjórnmálamönnum samtímans. Þá væri línan enn bundin við þrjár mílur. Því eins og menn muna voru þeir í Evrópu heilmikið á móti því í hvert eitt sinn og höfðu í hótunum og fylgdu þeim eftir. Allur er þessi aumingjadómur með miklum ólíkindum. ESB gæti vissulega samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið gripið til „sambærilegra mótvægisákvarðana“ ef Ísland hefði ekki lögtekið eitthvað í sínar bækur sem því bæri að gera og hefði ekki málefnalegar ástæður til að hafna.

Á þetta hefur aldrei reynt því að Ísland kyngir jafnan öllu. En Brusselliðið, sem litla fólkið í ráðuneytunum umgengst eins og börn umgangast leikskólakennara, hefði enga stöðu til að yggla sig í þessum efnum. Það á ekki við, eins og hefur legið fyrir frá fyrsta degi og mátti lesa úr þessum fína fundi í Valhöll.

ESB er sem stofnun fullkomlega ljóst, eða ætti að vera það, að Ísland mætti aldrei og myndi aldrei lögtaka reglugerðir eða tilskipanir sem því væri óheimilt í stjórnarskrá.

Frá fyrsta degi samningaviðræðna um EES var viðsemjandanum gerð grein fyrir þessari staðreynd. Ríkisstjórnin fékk vandaðan hóp fræðimanna til að fara yfir það hvort EES-samningurinn stæðist stjórnarskrá, enda hafði í átökum um hann verið fullyrt að svo væri ekki. Andstæðingarnir nutu lögfræðiaðstoðar að sínu leyti og fengu þá niðurstöðu að EES-samningurinn færi út fyrir mörkin sem stjórnarskráin leyfði. Ríkisstjórnin og aukinn meirihluti Alþingis féllst hins vegar á það mat sem hin opinbera laganefnd hafði í sinni niðurstöðu. En það fór aldrei á milli mála og var viðurkennt og ítrekað á fundinum á fimmtudag að þar var farið að ystu mörkum.

Heildarmyndin skiptir öllu

Á fundinum var á það bent að í mörgum einstökum og vissulega stundum minniháttar innleiðingum benti flest til að farið væri út fyrir heimildir stjórnarskrár. Um annað væri ágreiningur meðal sérfræðinga og virðist ríkisvaldið að hluta til hafa komið sér upp hópi sérfræðinga sem telja allt heimilt!

En á fundinum var áréttað að það hlyti að vera nauðsynlegt að líta á málið í heild og ekki síst þegar svo oft og svo víða hefði verið farið yfir þau mörk sem stjórnarskráin setur.

Í frétt Hjartar Guðmundssonar blaðamanns af fundinum segir að Stefán Már Stefánsson lagaprófessor hafi fjallað um það „hvernig aðild Íslands að EES-samningnum og sífellt frekari kröfur um framsal valds til evrópskra stofnana skapaði ákveðin vandamál varðandi stjórnarskrána. Samningurinn hefði í byrjun verið talinn á mörkum þess að standast hana en síðan hefði sífellt bæst við regluverk frá Evrópusambandinu í gegnum hann sem kallaði á frekara framsal valds. Stefán lagði áherslu á mikilvægi þess að horfa heildstætt á það valdaframsal sem átt hefði sér stað í gegnum EES-samninginn í stað þess að horfa aðeins á eina og eina lagagerð frá Evrópusambandinu. Það væri heildarmyndin sem skipti fyrst og fremst máli. Hversu mikið vald hefði verið framselt í heildina í gegnum samninginn og hvort það stæðist stjórnarskrána.“

Hliðverðir bregðast þjóðinni

Þetta er öllum orðið ljóst og það er sjálfsagt þess vegna sem, undir öðrum formerkjum þó, er sífellt sótt að stjórnarskránni. En það er ekki verkefnið heldur að standa vörð um stjórnarskrána og vinda fremur ofan af því sem misfarið hefur verið.

En það kom einnig fram á þessum fundi að kvörtunarefnið um að stjórnarskráin væri „of þröng í þessum efnum“ gerði það einmitt að verkum að það væri þó einhver staða til að taka hennar málstað, þótt það hefði ekki gengið að öllu leyti eftir. Ef því yrði breytt yrðu hinar veiku varnir nánast að engum vörnum.

Óþrjótandi ístöðuleysi

Þeir stjórnmálamenn sem eru eins og vaxbrúður í höndum þeirra embættismanna sem fyrir löngu hafa gengið í ESB og kæra sig kollótta um afstöðu þjóðarinnar eru þess vegna að leita leiða til að laska stjórnarskrána fremur en að standa vörð um hana. En það er ekki útilokað að einhvern tíma snúist dæmið við og stjórnmálamenn fáist til verka sem líta ekki á sig sem óbreytta handlangara „undirmanna sinna“.

Þótt slíkt virðist í augnablikinu æði fjarri er þó betra að hafa ekki leyft hinum að eyðileggja stjórnarskrána áður en það hugsanlega gerist.

Það var einnig mikið umhugsunarefni sem sagt var á fundinum að samningurinn um EES gengi auðvitað út frá því að það væri jafnræði í frumkvæði og atbeina að innleiðingarferlinu. En því hefði farið fjarri. ESB ætti allt frumkvæði og hver einasti þáttur innleiðingarferilsins kæmi úr þeirri átt. Væri full ástæða til að ætla að það stæðist ekki samninginn. Sérstaklega var nefnt að eftir Maastricht-sáttmálann hefðu breytingar sem Íslendingar hefðu ekki átt neina aðild að og ekkert haft um að segja verið leiddar inn í íslenskan rétt án þess að fulltrúar EES-samningsins kæmu nokkurs staðar að.

Bretar í „brexit-ferli“ skoðuðu hvort EES-leiðin kynni að henta þeim. En þegar þeir sáu hvernig norskir og íslenskir embættismenn haga sér eins og lærlingar á fyrsta ári í Brussel og hafa minni en engin áhrif sáu þeir að þetta væri ekkert fyrir þá, þótt hugmyndin hefði í upphafi virst snjöll.

Það er því miður orðið algjörlega ljóst að hliðverðir af Íslands hálfu hafa á umliðnum árum brugðist. Og þeir hafa einnig brugðist hinum pólitísku yfirboðurum sínum sem hina formlegu ábyrgð bera. Það tók tíma að átta sig á því að fullkominn trúnaðarbrestur hefði orðið á milli embættismannanna sem treyst var fyrir verkinu og þings og þjóðar. Í ljós hefur komið að þeir fyrrnefndu líta svo á að verkefni þeirra sé eingöngu að hotta á „heimamenn“ um að afgreiða pakkana sem búrókratarnir í Brussel afhenda þeim fullskapaða og að hneykslast á því að innleiðingarferlið heima gangi of hægt. Varla dettur nokkrum manni í hug að þeir sem hafa staðið með svo óboðlegum hætti að málum séu færir um að leggja mat á framvinduna fram að þessu.

Á fundinum var þetta orðað svo að þegar innleiðing væri svo einhliða eins og raunin hefur verið og þvert á anda EES-samningsins mætti spyrja hvort ekki væri rétt að tala um innlimun farþegans í samstarfinu fremur en innleiðingu reglna eftir sameiginlega niðurstöðu beggja. Það er auðvitað þannig.

Hér hefur aðeins verið nefndur hróplegur heimildarskortur til innleiðingar Þriðja orkupakkans. En þess má geta að margir þeirra sem tóku þátt í umræðunum bentu á að efnislega væri þessi innleiðing þess utan frámunalega óhagstæð hinni íslensku þjóð og dæmin sem nefnd voru tóku af öll tvímæli í þeim efnum.

Það bætist þá við stjórnarskrárbrotin.

Erfitt er að ímynda sér að þingmenn Sjálfstæðisflokksins muni standa að þessu máli, að minnsta kosti ekki þeir fáu sem hlupust ekki undan merkjum í Icesave.

Þá yrði þetta spurningin um forsetann.

Stæði hann með stjórnarskránni og þjóðinni eða klúbbnum.

Svarið er einfalt.

En maður veit aldrei.