Umferðin þyngist í höfuðborginni án þess að neitt sé að gert

Það hefur sennilega ekki farið fram hjá þeim, sem þurfa að komast leiðar sinnar í Reykjavík á annatíma, hvað umferðin hefur þyngst undanfarna daga. Fyrir þá, sem ekki þekkja til, eru ljósmyndir af umferðarhnútum við Fossvog og Ártúnsbrekku ágætur vitnisburður um ástandið.

Í frétt með myndunum segir að samkvæmt spá Vegagerðarinnar mun umferð á höfuðborgarsvæðinu aukast um 3% það sem eftir er af árinu miðað við sama tíma í fyrra.

Ár frá ári hefur umferðin þyngst á höfuðborgarsvæðinu þeir, sem ekki þurfa nauðsynlega að vera á ferðinni þegar mest lætur, veigra sér við að fara af stað.

Það er vitaskuld eðlilegt að eftir því sem fleiri eru á ferðinni taki lengri tíma að komast leiðar sinnar. Það er hins vegar ekki eðlilegt að nánast ekkert skuli hafa verið brugðist við þessum vanda svo árum skiptir þótt ljóst hafi verið í hvað stefndi.

Þess í stað hefur verið einblínt á óraunhæfar lausnir. Þegar borgarbúar svara ekki kallinu um að fara að hjóla eða taka frekar strætó en að nota einkabílinn er höfðinu stungið í sandinn og þráast við frekar en að horfast í augu við staðreyndir og reyna að greiða fyrir umferðinni.

Gatnakerfið þolir ákveðinn umferðarþunga og þegar honum er náð byrja tafirnar. Við hvern bíl, sem bætist við umfram þessi þolmörk verður ástandið óbærilegra.

Möguleikum til að greiða fyrir umferð hefur beinlínis verið hafnað, jafnvel þótt ráðstöfunarfé til framkvæmdanna hafi verið tiltækt, með þeim rökum að göturnar myndu fyllast hvort sem er. Götur hafa frekar verið þrengdar, en að gera þær greiðfærari.

Ísland er oft borið saman við útlönd og iðulega til að benda á hvers menn fari á mis með því að búa hér en ekki þar. Aldrei hefur þó talist eftirsóknarvert að taka upp þær umferðarstöppur og teppur, sem iðulega fylgja stórborgarlífi í útlöndum og gera að verkum að ein til tvær klukkustundir bætast við vinnudaginn.

Það virðist þó vera keppikefli núverandi meirihluta í borginni og er ekki laust við að tilhugsunin um að það gæti hæglega tekist veki hroll.