Aron Kristjánsson
Aron Kristjánsson
Aron Kristjánsson var hársbreidd frá því að vinna til gullverðlauna á fyrsta stórmóti sínu sem þjálfari karlalandsliðs Barein í handknattleik.

Aron Kristjánsson var hársbreidd frá því að vinna til gullverðlauna á fyrsta stórmóti sínu sem þjálfari karlalandsliðs Barein í handknattleik.

Barein mætti Katar í úrslitaleik Asíuleikanna í Jakarta í Indónesíu í gær og þar stóðu leikar jafnir, 25:25, að loknum venjulegum leiktíma. Katarbúar, sem hafa verið sterkastir í Asíu undanfarin ár, knúðu síðan fram sigur í framlengingunni, 32:27.

Barein vann Írak 30:24, Indland 32:25 og Taívan 37:21 í fyrstu umferð mótsins en síðan Íran 29:23, Suður-Kóreu 27:25 og Hong Kong 43:19 í milliriðli. Í undanúrslitum vann Barein síðan stórsigur á lærisveinum Dags Sigurðssonar frá Japan, 31:20, og tapaði því ekki leik í venjulegum leiktíma á mótinu.

Dagur missti naumlega af bronsinu því Suður-Kórea lagði Japan, 24:23, í leiknum um þriðja sætið í Jakarta í gær. Bæði Barein og Japan hafa tryggt sér sæti í lokakeppni HM 2019 í Danmörku og Þýskalandi. vs@mbl.is