Þorvaldur Þ. Baldvinsson fæddist 29. júlí 1940 í Gilsbakka á Litla-Árskógssandi. Hann lést á gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri 23. ágúst 2018.

Foreldrar hans voru hjónin Baldvin Jóhannesson og Jóhanna Freydís Þorvaldsdóttir.

Þorvaldur var einn átta systkina, en þau voru Anton Þór, fæddur 22. febrúar 1936, látinn; Jóhannes fæddur, 17. júní 1937, látinn; Brynjar, fæddur 22. júní 1939, látinn; Gylfi, fæddur 8. september 1941, látinn. Eftirlifandi systkini eru Zophonías, fæddur 28. ágúst 1943; Ragnheiður Ingibjörg, fædd 19. júní 1948; Pálína Katrín, fædd 27. desember 1951.

Eftirlifandi eiginkona Þorvaldar er Ingigerður Lilja Jónsdóttir, fædd 17. ágúst 1943. Þau gengu í hjónaband 29. maí 1965 og bjuggu allan sinn búskap á Dalvík.

Börn þeirra eru: 1) Baldvin, f. 1964, sambýliskona Leena Sekkat. Börn Baldvins af fyrra hjónabandi eru: a) Þorvaldur Ingi, f. 1988, sambýliskona hans Hrefna Katrín Björgvinsdóttir, sonur þeirra er Baldvin Karl, f. 2018. b) Berglind Ósk, f. 1993. 2) Kristján, f. 1967, maki Gunnhildur Birnisdóttir. Börn þeirra eru: a) Rakel, f. 2001, og b) Birnir, f. 2003. 3) Kristrún, f. 1968, maki Jón Arnar Árnason. Börn þeirra eru: a) Orri Fannar, f. 1996, sambýliskona Júlía Ósk Júlíusdóttir. b) Ingigerður Lilja, f. 1999, og c) Daði Hrannar, f.2002. 4) Sigfús Freyr, f. 1969. Börn hans eru: a) Guðjón Logi, f. 2005, b) Margrét Rósa, f. 2005, og c) Lilja María, f. 2007. 5) J. Freydís, f. 1974, sambýlismaður Steingrímur Friðriksson. Börn þeirra eru: a) Friðrik, f. 2000, b) Hafrún, f. 2005, og c) Þórir, f. 2009. 6) Harpa, f. 1979. Sonur hennar er Thomas Árni, f. 2005.

Fyrstu árin bjó Þorvaldur á Litla-Árskógssandi en tíu ára gamall flutti hann á Hauganes til Soffíu ömmu sinnar og Kristjáns móðurbróður, þar bjó hann allt þar til hann flutti til Dalvíkur.

Um fermingu byrjaði hann til sjós með Kristjáni frænda sínum. Hann var til sjós á ýmsum skipum og bátum þangað til hann leitaði sér menntunar. 1959-1960 tók hann vélstjórnarpróf, 1963-1964 var hann í Stýrimannaskólanum. Allan sinn starfsferil var hann til sjós og gegndi hann öllum störfum til sjós, hvort sem það var sem kokkur, vélstjóri eða skipstjóri.

Hann rak sína eigin útgerð til fjölda ára, þess á milli starfaði hann á skipum og bátum hjá öðrum.

Þorvaldur verður jarðsunginn frá Dalvíkurkirkju í dag, 1. september 2018, klukkan 13.30.

Það er skrýtið og óraunverulegt að hugsa til þess að þú sért dáinn, um leið rifjast upp ótal minningar. Eins og ferðirnar sem ég fékk að fara með þér á Sindra þegar ég var smápeð. Sennilega kom ég ekki að miklu gagni þegar ég hékk fram á borðstokkinn og var með beinar lýsingar á því sem kom upp með netunum í æsifréttastíl.

Eða þegar ég fékk að brasa með þér niðri í skúr. Eða þegar þú kenndir mér að gella svo ég gæti safnað mér smápeningi.

Eða söluferðirnar okkar á appelsínugula rúgbrauðinu. Þær voru nú oft skemmtilegar. Við keyrðum um sveitirnar og bönkuðum upp á á bæjunum og seldum fisk, ég fékk að hafa reiknivélina til þess að leggja saman og passaði vel upp á peningakassann á milli bæja. Ekkert smástolt af ábyrgðinni sem mér var falin óafvitandi að þú hefðir vel getað reiknað þetta allt saman í huganum og að kassinn hefði tæplega týnst í bílnum. Ef um langan veg var að fara styttir þú okkur stundir með því að syngja og segja sögur því ekkert var nú útvarpið í rúbbanum. Þú hafðir nefnilega svo gaman af því að syngja og við systkinin eigum ótal minningar tengdar tónlist í kringum þig, hvort sem þú varst að spila plötu með Villa Vill eða spila sjálfur á hljóðfæri og syngja. Ef þú varst eitthvað að brasa mátti alltaf heyra smáraul eða flaut.

Þetta var ekki alltaf eintóm gleði og gaman og bara svona til að það sé alveg á tæru, pabbi, þá er Kambsþrjóskan úr móðurættinni ekkert miðað við Sælandsþráann sem við fengum frá þér.

Þegar ég fór að eldast og búa mér heimili átti ég ófá símtöl við þig tengd matargerð, enda varstu listakokkur og í seinni tíð held ég að fátt hafi glatt þig meira en að matbúa og stússast í kringum mat. Í hvern á ég nú að hringja til þess að fá að vita hvað ég á að hafa kjötið lengi í ofninum eða hvernig er best að gera sósuna?

Þegar barnabörnin fóru að koma eitt af öðru leiddist þér ekkert að atast í þeim og æsa þau upp en lést svo mömmu svo um að róa liðið niður og sinna þessu helsta. Það kom því vel á vondan þegar hún Hafrún mín sá ekkert nema afa og þú máttir gjöra svo vel og svæfa hana og skipta á henni fyrstu skiptin sem hún fékk að gista. Friðriki fannst alltaf best að vera hjá ömmu og afa þegar hann var lítill, af því að hann og afi voru álíka árrisulir og fengu sér morgungraut saman. Hann elskaði morgungrautinn hans afa.

Þórir segir að það sé best að vera hjá ömmu og afa því hann fái alltaf að ráða hvað er í matinn þegar hann gistir og svo leyfir afi honum alltaf að vera í tölvunni. Veit ekki með þetta alltaf.

Það var augljóst að afahlutverkinu sinntir þú með mikilli gleði og ekki varð gleðin minni þegar fyrsta langafabarnið kom í heiminn. Þessar vikur sem þú lást á sjúkrahúsinu gladdi það þig langmest af öllu þegar afabörnin og litla langafakrílið komu í heimsókn.

Nú er allavega komið að leiðarlokum og það er gott til þess að vita að þú þarft ekki að finna til lengur, það var það erfiðasta eftir þetta ömurlega slys. Þórir sagði mér um daginn að 99 ár hjá okkur eru eins og einn dagur á himninum, þannig að þegar hann hittir þig eftir 99 ár þá verði það bara eins og þið hafið hist í gær. Vonandi, hver veit? Ég veit það hinsvegar að það hafa orðið fagnaðarfundir þarna hinum megin þegar þið bræðurnir hittust aftur. Ég get rétt ímyndað mér hlátrasköllin og bakföllin.

Við sjáumst þá bara á morgun.

Freydís.

Elsku hjartans pabbi minn, mér finnst það svo ótrúlegt að þú skulir vera farinn. Síðustu tveir mánuðir hafa verið okkur öllum erfiðir en loksins hefur þú fengið hvíldina eftir erfiða baráttu.

Mikið á ég eftir að sakna þín, sakna þess að heyra í þér reglulega því stundum hringdir þú bara til að spjalla um daginn og veginn.

Það var yfirleitt stutt í grínið og stríðnina og þér fannst ekkert leiðinlegt að æsa fólk upp. Ég held að þú hafir t.d. notað sama grínið á okkur systurnar þegar við vorum unglingar. Ef ég var eitthvað slöpp eða lasin spurðir þú hvort ég væri nokkuð ófrísk, það fauk heldur betur í mann, enda unglingur og ofurviðkvæmur fyrir öllu svona. Þá fórst þú bara að skellihlæja og sagðir, „fyrst þú ert ekki frísk þá hlýtur þú að vera ó-frísk“.

Þér fannst heldur ekkert leiðinlegt að æsa upp litlu krakkana. Þegar við Thomas bjuggum hjá ykkur mömmu og hann var tæplega fjögurra ára, þá þurfti hann alltaf að hlaupa nokkra hringi inn í stofu og glenna sig framan í þig fyrir svefninn. Stundum var hann kófsveittur og að springa úr æsingi loksins þegar ég náði honum í rúmið. Ég hreinlega veit ekki hvor ykkar skemmti sér betur.

Ég á ykkur mömmu svo margt að þakka, þið tókuð á móti okkur Thomasi fyrir tíu árum þegar við fluttum aftur heim til Íslands og hafið alltaf staðið þétt við bakið á mér, það er ómetanlegt. Alltaf voruð þið boðin og búin að hjálpa til og sú hjálp átti sér margar birtingarmyndir, t.d. gerðuð þið ykkur oft spes ferð inn á Akureyri til að sækja Thomas þegar hann kom í pössun til ykkar eða skiluðuð honum aftur inneftir eftir helgargistingu.

Þú varst alltaf að sýsla eitthvað með mat og oft var það eitthvert fiskmeti enda gamall sjóari. Veit ekki hversu oft þú varst búinn að útbúa fisk í raspi handa mér sem þú frystir og við gátum svo bara steikt seinna, og sólþurrkaði saltfiskurinn sem þú áttir oft handa okkur. Þú vart snilldarkokkur og ég held að þú hafir prófað að elda allt mögulegt. Þér fannst þetta gaman, það mætti segja að það hafi verið þitt áhugamál að skoða uppskriftir og horfa á matreiðsluþætti.

Þú fylgdist alla tíð vel með fréttum og veðri og alltaf var sussað á mann þegar fréttirnar voru, hvort sem þær voru í útvarpi eða sjónvarpi. Ég man að ég spurði þig oft hvort það hefði gerst eitthvað nýtt frá því þú hlustaðir á fréttirnar klukkutíma áður. Svo var sofið yfir kvöldfréttunum og veðrinu í sjónvarpinu en þú þóttist alltaf hafa bara rétt dottað.

Núna síðustu vikur hef ég verið að leita mér að íbúð, alltaf vildir þú vita hvernig leitin gengi og svo þegar ég sagði þér um daginn að þetta væri komið, ég væri búin að finna íbúð og þetta myndi reddast þá varstu glaður. Þú brostir bara og kinkaðir kolli. Þú fylgist ábyggilega vel með, en mikið vildi ég óska að þú gætir komið í heimsókn.

Elsku pabbi, við sjáumst aftur þegar minn tími kemur.

Harpa.

Þorvaldur Þorvaldsson hét hann fullu nafni, skírður í höfuðið á móðurafa sínum, hann Lalli Bald, bróðir minn. Hann lést 23. ágúst af afleiðingum bílslyss sem þau hjón, Lalli og Inga, lentu í í júní sl.

Lalli var einn af átta systkinum frá Sælandi á Árskógssandi. Nú hafa fimm bræður kvatt þessa jarðvist á fáum árum.

Í uppvextinum átti Lalli tvö heimili, í Sælandi og Gilsbakka á Hauganesi hjá móðurömmu og Stjána móðurbróður sínum. Eins og flestir drengir þessa tíma þar um slóðir var sjómennskan í fyrsta sæti og varð hans starf um ævina.

Honum Lalla var ýmislegt til lista lagt. Hann var mjög góður kokkur og liðtækur í því í seinni tíð. Hann þótti skarpur og skemmtilegur, hafði góðan húmor en var snöggur upp á lagið og oft fljótfær.

Hann var fljótur að tileinka sér nýjungar. Nú seinni ár var tölvan það tæki sem hann tileinkaði sér og notaði mikið. Ungur keypti hann sér segulbandstæki og rafmagnsgítar. Hann hafði gaman af tónlist og söng, enda var mikið sungið í Gilsbakka. Kristján frændi raulaði þessa vísu eftir Jón frá Ljárskógum.

Húmar að kveldi, hljóðnar dagsins ys,

hnígur að ægi gullið röðulblys.

Vanga minn strýkur blærinn blíðri hönd,

og báran kveður vögguljóð við

fjarðarströnd.

Ég er þreyttur, ég er þreyttur,

og ég þrái svefnsins fró.

Kom, draumanótt, með fangið fullt af friði og ró.

Syngdu mig inn í svefninn ljúfi blær.

Sorgmæddu hjarta er hvíldin jafnan vær.

Draumgyðja ljúfa, ljá mér vinarhönd,

og leið mig um þín töfraglæstu

friðarlönd.

Ég er þreyttur, ég er þreyttur,

og ég þrái svefnsins fró.

Kom, draumanótt, með fangið fullt af friði og ró.

Stjórnmálaskoðanir hans voru þess eðlis að það þýddi ekki að deila við dómarann. Hann vissi að Sjallarnir væru með þetta.

Sterk minning kemur upp í huga minn frá Sælandi. Lalli var fljótur að ráða krossgátur. Hann kom heim með vikublaðið Fálkann sem í var krossgáta. Ég fylgdist með honum leysa gátuna og bað hann að kenna mér. Þú lærir þetta einhvern tímann var svarið. Ég stalst í blaðið þar sem hann lagði það frá sér og sá þar orð sem stóð „veiki“ og skrifaði bara „illt í maga“ í auða reiti. Þetta uppátæki mitt varð honum mikið hlátursefni og átti hann það til að minna mig á að ég væri helv...góð að ráða krossgátur.

En Lalli réði ekki bara gátur í Fálkanum. Hann þurfti oft að ráða í krossgátur og gátur í lífinu sjálfu.

Lalli og Inga bjuggu öll sín hjúskaparár á Dalvík, áttu hlýlegt heimili og mikið barnalán, sem er ríkidæmi. Þau eignuðust sex myndarbörn og eru afkomendur þeirra nú á þriðja tug.

Lífsgöngu Lalla er nú lokið hér á jörð eftir margar flóknar gátur og götur og eflaust bíður hans góð heimkoma í Sumarlandið þar sem bræður hans og aðrir ættingjar taka vel á móti honum. Hver veit nema þau taki lagið!

Kæri bróðir, blessuð sé minning þín. Kæra Inga, börnin ykkar og fjölskyldur þeirra. Samúð okkar er hjá ykkur,

Ragnheiður Baldvinsdóttir (Heiða) og fjölskylda.

Í dag er ég að kveðja góðan dreng, vin og félaga, skóla- og fermingarbróðir, Lalla í Sælandi. Lalli eins og hann var kallaður jafnan, ólst upp í barnmargri, yndislegri, fjölskyldu og því oft þröngt á því heimili. Hann var ungur drengur þegar frændi hans Kristján í Gilsbakka á Hauganesi tók hann að sér og þá kynntumst við vel, jafnaldra guttar, alltaf í boltaleikjum, á bryggjunni og í bátum. Lalli var alltaf ljúfur og kátur, gerði að gamni sínu og man ég Lalla ekki í vondu skapi. Við gengum saman í barna- og unglingaskólann í Árskógi, og vorum fermdir saman, ásamt níu fermingarsystkinum, sem nú syrgja góðan vin. Fljótt eftir fermingu fórum við, á þessum aldri, að stunda sjó,

hann með frænda sínum á Draupni sem nú er á Síldarsafninu á Siglufirði.

Ég var þá á Sævaldi með pabba mínum, báðir þessara báta voru á línuveiðum fram við Grímsey, þegar svo illa vildi til að Lalli lenti í spilinu og lærbrotnaði mjög illa. Þá var ekki hægt að hringja á þyrlu, eins og nú tíðkast, heldur sett á fulla ferð í land á 6-7 sjómílna hraða og tók 5-6 klukkustundir að komast í höfn. Síðan að keyra með hann til Akureyrar á sjúkrahús.

Auðvita ná menn sér aldrei alveg eftir svona slys en Lalli var harður af sér og farinn að sparka bolta, ótrúlega fljótt aftur. Á táningsárunum ferðuðumst við mikið saman og eftir að ég keypti Willysinn fjölgaði ferðum okkar í Dalvíkurbíóið og á böllin sem haldin voru í nágrenninu.

Svo skildi leiðir okkar, ég fór suður og í siglingar, sambönd slitnuðu en minningar okkar lifðu og þegar við hittumst hló Lalli innilega við upprifjun okkar á prakkarastrikunum og yndislegum stundum unglingsáranna.

Bílslys gera ekki boð á undan sér, eitt augnablik og allt er breytt, lífsgleðin snýst upp í sorg og enginn veit þá kallið kemur eða hver er næstur.

Ég minnist Lalla með hlýjum hug og góðum minningum og veit að fermingarsystkinin átta sem eftir lifa gera það einnig.

Góður drengur, æskuvinur og félagi, fallinn frá.

Hvers vegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði.)

Eftirlifandi eiginkonu, börnum og fjölskyldum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Hafsteinn Reykjalín

Jóhannesson.