Evrópusambandið hyggst leggja til að aðildarríkin hætti þeim sið að breyta klukkunni tvisvar á ári. Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að um 84% þeirra sem tóku þátt í netkönnun á vegum sambandsins sögðust andvígir breytingunum.

Evrópusambandið hyggst leggja til að aðildarríkin hætti þeim sið að breyta klukkunni tvisvar á ári. Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að um 84% þeirra sem tóku þátt í netkönnun á vegum sambandsins sögðust andvígir breytingunum. Um 4,6 milljónir manna svöruðu könnuninni.

Samkvæmt framkvæmdastjórn Evrópusambandsins leiddi könnunin í ljós að mikill meirihluti þeirra sem svöruðu henni liti á klukkubreytingarnar sem óþægindi sem yllu svefn- og heilsufarsvandamálum, auk þess sem þær ykju líkurnar á umferðarslysum.

Violeta Bulc, yfirmaður samgöngumála í framkvæmdastjórninni, sagði fjölmiðlum í gær að breytingin gæti tekið gildi annaðhvort árið 2020 eða 2021. Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði að þetta yrði forgangsmál hjá sér, en könnunin leiddi í ljós mikinn stuðning Þjóðverja við að afnema breytingarnar á klukkunni.